Stoke City er eitt elsta knattspyrnufélag Englands. Stofnárið er sagt vera 1863 en aldrei hafa fundist öruggar heimildir sem staðfesta tilvist félagsins fyrr en árið 1868.

Stoke City er eitt elsta knattspyrnufélag Englands. Stofnárið er sagt vera 1863 en aldrei hafa fundist öruggar heimildir sem staðfesta tilvist félagsins fyrr en árið 1868. Þá hét það Stoke Ramblers og bar það nafn til 1870 en hét síðan Stoke til 1925 þegar City var bætt aftan við. Árið 1908 varð félagið gjaldþrota en nýtt var stofnað með sama nafni.

Stoke var eitt af stofnliðum ensku deildakeppninnar árið 1888. Félagið missti sæti sitt 1890 en endurheimti það árið eftir. Stoke féll úr efstu deild 1907 og eftir gjaldþrotið 1908 lék það ekki aftur í deildakeppninni fyrr en 1919. Frá þeim tíma hefur það leikið í efstu deild árin 1922-23, 1933-1953, 1963-1977 og 1979-1985. Stoke lék í núverandi 1. deild 1993-1998 en er nú að spila sitt annað tímabil í röð í 2. deild.

Besti árangur Stoke City í efstu deild er 4. sæti árin 1936 og 1947. Í ensku bikarkeppninni hefur félagið aldrei leikið til úrslita en þrívegis komist í undanúrslit, síðast 1972. Það sama ár vann félagið sinn eina stóra titil í ensku knattspyrnunni þegar það sigraði í deildabikarkeppninni. Í kjölfarið lék Stoke í UEFA-bikarnum í tvígang, 1972-73 og 1974-75. Stoke hefur einnig sigrað einu sinni í bikarkeppni neðrideildarliðanna. Það var árið 1992 en þá vann Stoke sigur á Stockport á Wembley, 1:0, að viðstöddum 50 þúsund áhorfendum.

Þó Stoke hafi ekki unnið stóra titla í ensku knattspyrnunni hefur það oft á tíðum verið hátt skrifað og skartað mörgum snjöllum leikmönnum. Frá fyrri tíð stendur hinn nýlátni töframaður Stanley Matthews uppúr, enda einn vinsælasti knattspyrnumaður Englands fyrr og síðar.

Guðjón Þórðarson er þriðji knattspyrnustjórinn sem leiðir Stoke City til leiks á Wembley. Hinir eru Tony Waddington, í úrslitaleik deildabikarsins 1972, og Lou Macari, í þessari sömu keppni árið 1992.