Feðgarnir Guðmundur og Steinar Jóhannsson.
Feðgarnir Guðmundur og Steinar Jóhannsson.
KEFLVÍKINGURINN Guðmundur Steinarsson fetaði í fótspor pabba síns er hann skoraði fyrsta mark Íslandsmótsins - skoraði úr vítaspyrnu fyrir Keflvíkinga gegn Breiðabliki á 13.28,83. mín. á grasvellinum í Keflavík. Þar með lék hann eftir afrek sem pabbi hans gerði upp á dag fyrir 26 árum, er hann skoraði fyrsta mark mótsins á 62 mín. í leik gegn Fram í Njarðvík 18. maí 1974, þegar Keflvíkingar unnu, 2:1. Steinar skoraði þá eftir 75 sek.

Guðmundur á þó eftir að ná að jafna metin við pabbann, því að Steinar hefur afrekað það einn knattspyrnumanna að skora fyrsta markið tvisvar sinnum. Hann skoraði einnig fyrsta markið 1972, þegar Keflvík lagði ÍA að velli á Akranesi 28. maí, 3:1.

Bróðir Steinars, "marka-Jón" skoraði fyrsta mark Íslandsmótsins 1967, þegar Keflavík vann Íþróttabandalag Akureyrar í Njarðvík 28. maí, 2:1 - eftir 8 mín.

Tveir aðrir bræður hafa skorað fyrsta mark mótsins - KR-ingarnir Óskar og Steinar Ingimundarsynir, 1983 og 1989.

Guðmundur er fimmti leikmaðurinn sem hefur skorað fyrsta markið úr vítaspyrnu, Aðrir eru Reynir Jónsson, Val, 1968, Magnús Jónatansson, ÍBA, 1970, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Þór, 1977 og Óli Þór Magnússon, Keflavík, 1987.

"Það er alltaf gaman skora, ekki spillti fyrir að þetta var fyrsta mark mótsins," sagði Guðmundur, sem skoraði sitt fjórða mark í 30 leikjum í efstu deild.

"Það var ekki búið að ákveða að ég tæki vítaspyrnuna - það komu skilaboð frá Páli þjálfara. Ég gat ekki skorast undan, var ákveðinn að skora."