Ása Ragnarsdóttir, formaður kynningarnefndar Félags grunnskólakennara, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, formaður félagsins, Helgi E. Helgason, forstöðumaður upplýsingasviðs Kennarasambands Íslands og Finnbogi Sigurðsson, varaformaður Félags grunnskólakennara.
Ása Ragnarsdóttir, formaður kynningarnefndar Félags grunnskólakennara, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, formaður félagsins, Helgi E. Helgason, forstöðumaður upplýsingasviðs Kennarasambands Íslands og Finnbogi Sigurðsson, varaformaður Félags grunnskólakennara.
GRUNNSKÓLAKENNARAR telja að byrjendalaun kennara þurfi að hækka úr 107 í 181 þúsund krónur á mánuði og að meðalgrunnlaun þurfi að hækka í um 235 þúsund krónur, úr um 130 þúsundum.

GRUNNSKÓLAKENNARAR telja að byrjendalaun kennara þurfi að hækka úr 107 í 181 þúsund krónur á mánuði og að meðalgrunnlaun þurfi að hækka í um 235 þúsund krónur, úr um 130 þúsundum. Kemur þetta fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem Félag grunnskólakennara hefur látið gera.

Félag grunnskólakennara er fjölmennasta félagið í nýju Kennarasambandi Íslands, með tæplega fjögur þúsund félagsmenn. Á stofnfundi félagsins í haust var samþykkt að efna til víðtækrar skoðanakönnunar meðal félagsmanna um afstöðu þeirra til ýmissa mála sem tengjast launa- og starfskjörum og ímynd þeirra í samfélaginu. Þátttaka var góð því svör bárust frá 74% félagsmanna.

Konur gera meiri kröfur en karlar

Í könnuninni kom fram að grunnskólakennarar telja að semja þurfi um verulega hækkun launa í næstu kjarasamningum. Að meðaltali telja þátttakendur að byrjunarlaun þurfi að hækka í 181 þúsund á mánuði en þau eru 107 þúsund nú. Samsvarar það tæplega 70% hækkun. Ef tekið er meðaltal af óskum þátttakenda kemur í ljós að kennarar telja að meðalgrunnlaun þurfi að hækka í 235 þúsund krónur á mánuði en meðaltalið er nú um 130 þúsund, samkvæmt upplýsingum Félags grunnskólakennara. Í þessu felst ósk um liðlega 80% hækkun meðalgrunnlauna. Þá kemur fram að stór hópur grunnskólakennara telur að launin þurfi að hækka enn meira, þannig nefna rösklega 4% þátttakenda að meðalgrunnlaun þurfi að vera 350 til 500 þúsund kr. á mánuði.

Athygli vekur þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar að konur nefna heldur hærri tölur um laun en karlar. Munar 5 þúsund krónum að meðaltali á milli kynjanna þegar spurt er um hve há byrjunarlaun ættu að vera og 10 þúsund krónum á grunnlaununum.

Fram kom á blaðamannafundi í gær, þar sem könnunin var kynnt, að hún hefði meðal annars verið gerð til undirbúnings kröfugerð kennara vegna komandi kjarasamninga. Núverandi samningur rennur út um næstu áramót. Guðrún Ebba Ólafsdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir að niðurstöður könnunarinnar sýni hvað félagsmennirnir telji að launin þurfi að vera há og þær hljóti því að gefa sterkar vísbendingar um kröfugerð félagsins í komandi samningum. Hún tekur fram að vinna við kröfugerð standi yfir og niðurstaða hennar sé ekki ljós.

Leggjast ekki gegn lengingu skólaársins

Grunnskólakennarar leggjast ekki gegn því að skólaárið verði lengt og hugsanlegum breytingum á skólastarfi. Þannig er liðlega 61% þátttakenda samþykkt því að árlegur starfstími skóla verði lengdur en til komi vetrarfrí á móti en tæplega 39% andvíg. Mikill meirihluti kennara, 82,5%, telur að yrði skóladögum fækkað ættu grunnlaun að hækka á móti. Hinir telja æskilegra að dregið yrði úr kennsluskyldu við fjölgun nemendadaga.

Í skoðanakönnuninni kom fram eindreginn stuðningur við þá stefnu Félags grunnskólakennara að við næstu kjarasamningagerð verði lögð áhersla á að skilgreina sérstaklega starfssvið umsjónarkennara og að þeir fái laun í samræmi við umfang og ábyrgð starfsins. Fram kom á blaðamannafundinum að skyldur umsjónarkennara hefðu aukist mikið á undanförnum árum.

Þá telja yfir 93% þátttakenda að í næstu kjarasamningum eigi að semja um hámarksfjölda nemenda í bekkjardeildum.

Í könnuninni var spurt um afstöðu félagsmanna til þess að settar verði sérstakar siðareglur fyrir kennara. Var það gert í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á kennarastarfinu á undanförnum árum. Það kom forráðamönnum Félags grunnskólakennara á óvart hvað mikill meirihluti kennara, eða 86% svarenda, lýsti sig mjög eða frekar hlynntan því að kennarar settu sér slíkar reglur. Fram kom hjá Guðrúnu Ebbu að innan Kennarasambandsins hefði í nokkur ár verið unnið að undirbúningi siðareglna. Slík vinna færi nú einnig fram á hinum Norðurlöndunum.