SJÓVÁ-Almennar tryggingar hefur verið sýknað af kröfum konu um bætur vegna vinnuslyss.

SJÓVÁ-Almennar tryggingar hefur verið sýknað af kröfum konu um bætur vegna vinnuslyss. Hún fór fram á að félagið greidd sér um 10,8 milljónir króna auk dráttarvaxta í skaðabætur vegna vinnuslyss sem hún varð fyrir í lok mars árið 1989 þar sem hún var við vinnu sína hjá K. Jónssyni og Co hf. Konan var metin 20% öryrki í kjölfar slyssins.

Fyrirtækið var með ábyrgðar- og slysatryggingu hjá Sjóvá-Almennum á þeim tíma sem slysið varð. Ágreiningur varð um bótaskyldu hlutafélagsins og var mál rekið fyrir bæjarþingi Akureyrar en dómur féll í febrúar 1991. Í þeim dómi var öll sök á slysinu lögð á fyrirtækið og konunni dæmdar bætur sem tryggingafélagið greiddi. Dómnum var ekki áfrýjað og bætur voru greiddar. K. Jónsson og Co varð gjaldþrota fyrir allmörgum árum, skiptum er lokið í búinu og engir möguleikar á að gera frekari kröfur á hendur því.

Þegar fram liðu stundir kom í ljós að afleiðingar slyssins voru mun alvarlegri en séð hafði verið fyrir þegar örörkumat fór fram. Konan réð því lögmann til að reka málið að nýju fyrir dómstólum, en í ljós kom að hann aðhafðist lítið sem ekkert í málinu, en konan hélt allan tímann að málið væri í eðlilegum farvegi eins og lögmaður hennar hélt fram. Fór svo að lokum að konan fékk annan lögmann til að annast málið fyrir sig.

Tryggingafélagið taldi að í málinu væri um að ræða aðildarskort sem leiddi til sýknu. Það væri vátryggingafélag sem K. Jónsson og Co. hefði keypt af ábyrgðartryggingu en í því fælist að tryggingin væri eingöngu keypt í þágu þess fyrirtækis og tjónþolar ættu enga beina kröfu á hendur félaginu. Sýknukrafan byggist einnig á því að konan hafi fengið fullnaðarbætur vegna tjóns síns með dómi frá árinu 1991.

Í áliti dómsins kemur fram að samkvæmt lögum um tryggingasamninga, sem taki til ábyrgðartrygginga öðlist sá sem bíður tjón rétt vátryggðs á hendur vátryggingafélagi, þegar staðreynt hefur verið að vátryggður sé skaðabótaskyldur gagnvart þeim sem tjónið beið og upphæð bótanna hafi verið ákveðin. Félagið hafi mótmælt nýju örorkumati efnislega. Upphæð bótanna vegna slyssins hafi ekki verið ákveðin að öðru leyti en gert var með dómnum frá 1991, en það skilyrði þurfi að vera uppfyllt svo tjónþoli öðlist rétt vátryggðs á hendur tryggingafélaginu.

Dominn kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari.