Hljómsveitin Six Pack Latinos: "Þegar við viljum virkilega sleppa fram af okkur beislinu  sláum við upp balli og spilum sólartónlist."
Hljómsveitin Six Pack Latinos: "Þegar við viljum virkilega sleppa fram af okkur beislinu sláum við upp balli og spilum sólartónlist."
SUMARIÐ er tíminn, raulaði skáldið og hver getur mótmælt slíkri staðhæfingu? Sólargeislar, grill og stuttbuxur. Sautjándi júní, fuglasöngur og listahátíð. Já, Listahátíðin í Reykjavík hefur verið ríkur þáttur í sumarstemmningunni síðastliðna þrjá...

SUMARIÐ er tíminn, raulaði skáldið og hver getur mótmælt slíkri staðhæfingu? Sólargeislar, grill og stuttbuxur. Sautjándi júní, fuglasöngur og listahátíð. Já, Listahátíðin í Reykjavík hefur verið ríkur þáttur í sumarstemmningunni síðastliðna þrjá áratugi. Hátíðin verður formlega sett á morgun en í kvöld tekur Klúbbur Listahátíðar forskot á sæluna á einkar viðeigandi máta með því að slá upp "glóandi geggjuðum" sumardansleik í Kaffileikhúsinu þar sem íslenska gleðisveitin Six Pack Latino ætlar að sjóða skotheldan dansbræðing. "Við ætlum okkur að efla sólarvitundina sem ríkt hefur síðustu daga en um leið útiloka kuldann," segir Tómas R. Einarsson sveitarmeðlimur. "Það verður sjóðheitt inni í Kaffileikhúsinu í kvöld, því lofa ég."

Sameinumst í kúb- verskri sálartónlist

Six Pack Latino hefur starfað í ein tvö ár og ásamt Tómasi, sem leikur á kontrabassa, skipa sveitina þau Jóhanna V. Þórhallsdóttir söngkona, Páll Torfi Önundarson gítarleikari, Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari, Þórdís Claessen slagverksleikari og Matthías M. D. Hemstock trommari. "Nafnið varð til á fyrstu æfingum sveitarinnar en þá var stundum boðið upp á öl í sex flaskna kippum, við vorum sex í sveitinni og spiluðum suðræna tónlist. Því slógum við fram þessu óábyrga og galgopalega nafni," segir Tómas þegar hann er spurður um tilurð hins sérstaka nafns á flokknum. Six Pack Latino gaf út breiðskífu fyrir síðustu jól sem bar heitið "Björt mey og mambó" og gefur nafnið vel til kynna hvert sveitin sækir innblásturinn að sögn Tómasar. "Við eigum okkur mjög mismunandi tónlistarfortíð; komum úr djassi, klassík, vísnasöng og öðru, en það sem sameinar okkur er brennandi áhugi á kúbanskri sólartónlist. Við búum náttúrlega á Íslandi og sækjum því einnig í hinn íslenska tónlistarbrunn, þá sérstaklega frá sjötta áratugnum þegar íslenskir tónlistarmenn voru einmitt að gæla við suðræna tóna eins og við." Six Pack Latino blanda síðan saman í eina súpu þessum suðræna-íslenska dansarfi, frumsömdu efni í sama stíl, aðallega eftir þá Tómas og Pál Torfa, og síðast en ekki síst hinni kúbönsku tónlistarbyltingu sem gengið hefur yfir gervalla heimsbyggðina undanfarið og kennd hefur verið við "Buena Vista Social Club" - verkefni bandaríska gítarleikarans Rys Cooder. "Six Pack Latino er skemmtisveit fyrir okkur sjálf fyrst og fremst," segir Tómas. "Við spilum venjulega alla mögulega tónlist aðra, en þegar við viljum virkilega sleppa fram af okkur beislinu sláum við upp balli og spilum sólartónlist."