"NÚ vinna rúmlega 5.000 af þeim 280.000 manns sem búa á Íslandi við upplýsingatækni og veltan í greininni var um 700 milljónir dala í fyrra og fer vaxandi dag frá degi," segir í inngangi að viðtali sænska blaðins Näringsliv við Skúla Mogensen, forstjóra Oz.com, en til stendur að skrá 10% af hlutafé félagsins í kauphöllinni í Stokkhólmi í sumar. "Á íslenska hlutabréfamarkaðinum, sem er mjög lítill á sænska vísu, eru enn skráð mjög fá fyrirtæki í upplýsingatækni en búast má við að þeim eigi eftir að fjölga til muna á næstu misserum. Upplýsingatækni er þriðja mikilvægasta útflutningsgrein Íslendinga á eftir fisk- og ferðamannaiðnaði og hún er sú grein sem vex langhraðast og margir sérfræðingar spá því að hún eigi eftir að komast á listann innan fárra ára," segir í Näringsliv.
Í viðtali blaðsins við Skúla er rakin saga Oz og vöxtur fyrirtækisins á síðustu árum og mánuðum og samstarfs þess við Ericsson. Og rætt um framtíðarhorfurnar: "Evrópa, Asía og umfram allt Japan, þar ætlum við að færa út kvíarnar," segir Skúli, "og fjölga starfsmönnum um allt að 200." Aðspurður um mögulega veltu fyrirtæksins í framtíðinni vildi Skúli ekki nefna neinar tölur en lét þó á sér skilja að fyrirtækið hyggist sækja fram á næstu árum. "Það er engin tilviljun að Oz.com varð til á Íslandi," segir í grein blaðsins. "Þar ríkir mikill uppgangur í upplýsinga- og tæknigeiranum og Íslendingar eru ein mestu tæknifrík í heiminum og segja má að hver einasti Íslendingur sé stöðugt með farsíma í hendinni. Við Íslendingar erum nýjungagjarnir," segir Skúli. "Og vegna einangrunarinnar hentar það okkur að rannsaka nýja hluti. Maður hittir marga ævintýramenn á Íslandi og fyrir mitt leyti væri ég ekki par hrifinn af því að vita fyrirfram hvað ég mun fást við eftir nokkur ár."