Uni Arge fór þjáður af leikvelli á Akranesi.
Uni Arge fór þjáður af leikvelli á Akranesi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÓLAFUR Þórðarson er greinilega búinn setja mark sitt á Skagaliðið. Baráttugleði og vilji einkenndu framgang allra leikmanna ÍA gegn Leiftri í gærkvöld og þeir uppskáru mjög verðskuldaðan sigur, sem hæglega gat orðið stærri en 1:0 miðað við marktækifæri og þann sóknarþunga sem Skagamenn héldu uppi stóran hluta leiksins.

Aðstæður á Akranesi í gærkvöld bentu ekki til þess að ÍA og Leiftur myndu bjóða áhorfendum upp á skemmtilega knattspyrnu. Strekkingsvindur og kuldi eru ekki bestu skilyrðin til að sýna leikni og spil, en það var mesta furða hvernig til tókst og bæði liðin sýndu að þau eru til alls líkleg í sumar. Sérstaklega þó Skagamenn sem virðast geta staðið undir þeim væntingum að vera það lið sem helst veiti KR keppni um Íslandsmeistaratitilinn í ár.

Skagamenn hófu leikinn af krafti og réðu ferðinni mest allan fyrri hálfleikinn en Leiftur átti þó ágætan kafla um og fyrir hann miðjan. Kári Steinn Reynisson hitti ekki mark Leifturs úr dauðafæri á markteig og Jens Martin Knudsen, markvörður Leifturs, varði vel frá landa sínum, Una Arge, sem komst einn gegn honum eftir stungusendingu Haralds Hinrikssonar.

En einmitt þegar Leiftur hafði rétt úr kútnum og meira jafnvægi var komið í leikinn skoraði Baldur Aðalsteinsson fyrir ÍA, á 24. mínútu. Þar með tóku Skagamenn völdin og sóttu af miklum krafti út hálfleikinn. Sigurður Jónsson, Haraldur og Uni voru allir nálægt því að skora, Uni fékk besta færið en aftur varði Jens Martin frá honum á glæsilegan hátt. Uni fór síðan meiddur af velli fyrir hlé.

ÍA hóf seinni hálfleikinn af sama krafti og hélt uppi þungri pressu fyrsta korterið. Albert Arason fékk þó fyrsta færið en Ólafur Þór Gunnarsson, markvörður ÍA, varði frá honum. Haraldur var tvívegis ágengur við mark Leifturs, í seinna skiptið óð hann einn í gegnum vörnina en skaut framhjá.

Þarna urðu kaflaskil. Leiftur náði betri tökum á miðjuspilinu og Skagamenn drógu sig aftar á völlinn. John Petersen sýndi að hann á eftir að verða skeinuhættur í sumar þegar hann var tvívegis nálægt því að jafna á þremur mínútum. Fyrst varði Ólafur Þór mjög vel frá honum og síðan skaut Færeyingurinn rétt framhjá. Þetta voru bestu færi Ólafsfirðinga og þó þeir væru meira með boltann til leiksloka vantaði betra skipulag á sóknaraðgerðir þeirra. Skagamenn voru nær því að bæta við marki úr skyndisóknum; Hjörtur Hjartarson komst næst því en Jens varði vel.

Skagamenn koma greinilega firnasterkir til leiks á þessu Íslandsmóti, staðráðnir í að hrista af sér doðann sem var yfir liðinu í fyrra. Eins og það lék í gærkvöld var varla veikan hlekk að finna og enn eiga Alexander Högnason og Stefán Þór Þórðarson eftir að bætast í hópinn. Sigurður Jónsson styrkir liðið að sjálfsögðu umtalsvert, hann er greinilega í mjög góðri æfingu og var miðpunkturinn í leik ÍA sem aftasti miðjumaður. Ógnunin í sóknarleiknum datt niður við að missa Una af velli og það gæti orðið þeirra helsta vandamál að leysa hann af hólmi ef meiðsli hans reynast alvarleg.

Ólafsfirðingar sýndu að þó þeir ættu undir högg að sækja stóran hluta leiksins geta þeir ógnað hvaða liði sem er í sumar. Nýju Færeyingarnir þrír, Joensen, Rasmussen og Petersen, eru allir vel spilandi og eiga að geta séð til þess að liðið haldi boltanum betur og komi framar á völlinn en í fyrra. Í gærkvöld stóðu upp úr þeir Jens Martin í markinu og Hlynur Birgisson sem var firnasterkur í vörninni. Leiftur vantaði meiri brodd í sóknarleikinn en fékk þó færi sem gátu tryggt liðinu stig eins og leikurinn þróaðist.

Víðir Sigurðsson skrifar