FÆSTIR vilja búa á Högunum í Reykjavík en flestir í Hafnarfirði, að því er fram kemur í könnun Gallups á viðhorfi til höfuðborgarinnar sem unnin var fyrir Samvinnunefnd svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Sögðust 9,4% helst vilja búa í Hafnarfirði en 0,4% á Högunum.
Nefndu 69,5% svarenda staðsetningu húsnæðis, umhverfi og svæði sem þá þætti sem mestu máli skipta við val á húsnæði. Þá töldu 79% nálægð við skóla skipta miklu máli við val á húsnæði, 77% nálægð við útivistarsvæði og 75% að verslanir séu í nágrenninu. Næstum 88% höfuðborgarbúa telja ólíklegt að þeir kaupi húsnæði við mikla umferðargötu jafnvel þótt þeim líkaði húsið.