TEITUR Þórðarson, þjálfari Brann í Noregi, er vinsælasti maður Bergen þessa dagana enda er Brann á toppi norsku deildarinnar og það er langt síðan það hefur gerst.

Að sögn norska blaðsins Bergensavisen voru leikmenn liðsins hylltir sem hetjur þegar ljóst varð á þriðjudagskvöldið að Brann væri í efsta sæti deildarinnar eftir 2:0-sigur á Moss. Um 19.000 manns fögnuðu árangrinum um kvöldið og enn fleiri daginn eftir, en þá var þjóðhátíðardagur Norðmanna. Skrúðgöngur voru farnar um götur bæjarins eins og venja er og að þessu sinni gátu leikmenn Brann borið höfuðið hátt og enginn hærra en Teitur að sögn blaðsins.

Venjan er að leika heila umferð í deildinni daginn fyrir þjóðhátíðardaginn og undanfarin ár hefur Brann ekki riðið feitum hesti frá þeim leikjum og því verið fremur lágt risið á leikmönnum á þjóðhátíðardaginn. Árið 1994 vann liðið raunar Bodö/Glimt 16. maí og gerði markalaust jafntefli árið eftir við Lilleström en nú var tvöföld ástæða til að fagna: Sigur á Moss og efsta sætið í deildinni. Það varð ljóst þegar Rosenborg gerði jafntefli og leikmenn og áhorfendur í Bergen fögnuðu ógurlega og var engu líkara en meistaratitillinn væri í höfn, enda hlupu leikmenn heiðurshring á vellinum við mikinn fögnuð áhorfenda.

Teitur tekur velgengninni af hógværð og segir að þrennt vegi þar þyngst; góð grunnþjálfun leikmanna, frábær andi innan liðsins og duglegir einstaklingar. "Með þetta þrennt í lagi verður liðið gott," segir Teitur.