HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt uppsögn yfirlæknis á Landspítala, háskólasjúkrahúsi, ógilda.

HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt uppsögn yfirlæknis á Landspítala, háskólasjúkrahúsi, ógilda. Rétturinn staðfestir þar með niðurstöðu héraðsdóms, en málinu var vísað aftur heim í hérað í vetur, þar sem Hæstiréttur sagði héraðsdóm ekki hafa tekið afstöðu til allra þátta í málflutningi mannsins.

Sjúkrahús Reykjavíkur, sem nú heitir Landspítali - háskólasjúkrahús, sagði Gunnari Þór Jónssyni upp starfi yfirlæknis slysa- og bæklunarlækningadeildar í júlí í fyrra, en starfinu gegndi hann jafnframt því að vera prófessor í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands.

Staðan hluti af prófessorsstöðu

Hæstiréttur segir ekki vafa leika á því að út frá því hefði verið gengið að yfirlæknisstaða á slysadeild sjúkrahússins yrði hluti prófessorsembættis í slysalækningum og að starfi prófessors yrði ekki sinnt eins og til var ætlast nema umrædd staða á spítalanum fylgdi því. Það hafi eingöngu verið á valdi þeirra sem veittu prófessorsembættið að víkja honum úr starfi. Hafi forráðamönnum spítalans því borið að snúa sér til læknadeildar Háskóla Íslands með ósk um atbeina hennar, teldu þeir nauðsynlegt að maðurinn yrði færður úr starfi við spítalann. Sjúkrahúsið hefði ekki verið réttur aðili til að segja honum upp störfum.

Hæstiréttur staðfesti þar með niðurstöðu héraðsdóms um ógildingu uppsagnarinnar og dæmdi sjúkrahúsið til að greiða lækninum 300 þúsund krónur í málskostnað.