Eiríkur Jónsson
Eiríkur Jónsson
Háskólayfirvöld og stúdentar, segir Eiríkur Jónsson, ættu að sameinast í baráttu fyrir auknu fjárframlagi.

UNDANFARIÐ hefur talsverð umræða verið í þjóðfélaginu um það hvort eðlilegt sé að taka upp skólagjöld fyrir væntanlegt MBA-nám við Háskóla Íslands. Með því yrðu í fyrsta sinn tekin upp skólagjöld í framhaldsnámi við skólann og er áætlað að námið kosti hvern nemanda 1,2-1,4 milljónir króna. Stúdentaráð hefur mótmælt fyrirhugaðri gjaldtöku og málið hefur tvisvar komið til kasta Alþingis þar sem gjaldtökunni var einnig mótmælt.

Skólagjöld ekki heimil

Umræðan í þjóðfélaginu hefur að miklu leyti snúist um almenn skoðanaskipti á því hvort eðlilegt sé að taka upp skólagjöld í framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Margt hefur verið tínt til, svo sem að erlendis séu innheimt skólagjöld fyrir MBA-nám, námið sé hugsað fyrir þá sem hafa góða tekjumöguleika og verði að miklu leyti borgað af vinnuveitendum nemenda. Einnig hefur verið nefnt að af samkeppnisástæðum sé nauðsynlegt að Háskóli Íslands hefji innheimtu skólagjalda að einhverju marki. Þessi atriði eiga einfaldlega ekki við núna, enda verður umræðan að taka mið af þeim lagaramma sem skólanum var settur í fyrra. Háskólinn fjallaði um þessi atriði fyrir rúmu ári þegar hann fékk frumvarp að sérlögum um skólann til umsagnar og svaraði þeim þannig að ekki væri rétt að taka upp skólagjöld. Alþingi svaraði á sama máta og ný sérlög voru sett um skólann þar sem sú stefna var klárlega mörkuð að skólagjöld skyldu ekki tekin upp, hvorki í grunn- né framhaldsnámi. Hin nýja löggjöf er skýr og umræðan í háskólanum snýst því eingöngu um það hvort sú leið sem gert er ráð fyrir til innheimtu skólagjalda sé í samræmi við lögin. Svo tel ég ekki vera.

Farið í kringum lögin

Meginregla laganna um engin skólagjöld er skýr og afar óeðlilegt að teygja heimild laganna til að innheimta gjöld fyrir endurmenntun yfir MBA-nám. Rökin fyrir því að fella meistaragráðu líkt og MBA undir endurmenntun eru mjög óljós, enda augljóst að slík meistaragráða er lokaáfangi nemenda á námsleið sinni. Hér er því um sjálfstætt nám en ekki endurmenntun að ræða. Af því leiðir að óheimilt er að innheimta skólagjöld fyrir námið.

Alþingi vill aðrar leiðir

Það er afar hryggileg staða ef háskólayfirvöld leggja til að lögð verði skólagjöld á nemendur með þessum hætti. Með því gefst háskólinn algjörlega upp fyrir fjársvelti undanfarinna ára og gefur upp á bátinn grundvallarsjónarmið um skólann. Ekkert virðist hafa verið reynt að leita til fulltrúa ríkisvaldsins um fjármögnun námsins heldur hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir að lögð yrðu á skólagjöld. Þetta er ótrúleg staða í ljósi umræðna á Alþingi þar sem meirihluti þingmanna virðist andsnúinn þessu fyrirkomulagi og fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu hafa lýst yfir áhuga á því að leita annarra leiða, t.d. með auknum fjárframlögum.

Tillaga stúdenta

Nú stendur yfir háskólafundur Háskóla Íslands og í dag verður rætt um drög að reglugerð fyrir skólann þar sem gert er ráð fyrir framangreindu skipulagi námsins. Stúdentar hafa lagt fram tillögu þess efnis að háskólayfirvöld leiti allra leiða til þess að treysta fjárhagslegan grundvöll námsins, svo sem með viðræðum við ríkisvaldið, með það að leiðarljósi að farið verði að lögum um Háskóla Íslands og skólagjöld ekki tekin upp. Þetta er sameiginleg tillaga allra stúdenta á háskólafundi.

Reyna þarf til þrautar

Háskólayfirvöld og stúdentar ættu að sameinast í baráttu fyrir auknu fjárframlagi til að hið nýja nám verði án skólagjalda. Það er afar jákvætt að Háskóli Íslands auki námsframboð sitt með þessum hætti, en mikilvægt er að hann viðhaldi þeirri stefnu sinni að bjóða upp á góða og fjölbreytta menntun fyrir alla og leggi ekki til að haldið verði inn á braut skólagjalda. Reyna þarf til þrautar að fjármagna námið með öðrum hætti, enda væri í meira lagi sérkennilegt ef háskólinn samþykkti álagningu skólagjalda eftir þessari vafasömu leið sem er í ósamræmi við vilja löggjafans og stríðir gegn vilja stúdenta.

Höfundur er formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands.