Í FRÉTTUM sjónvarpsins fyrir skömmu lofaði Gísli fréttamaður mjög veðurblíðuna þann daginn á Akureyri. Hann sagði að það hafi verið nánast logn og 25 stiga hiti. Hitinn á veðurstöðinni á Akureyri var hins vegar ekki mældur meiri en 21 stig.
Þó er hitamælaskýlið á malbiki og uppfyllir því strangt tiltekið ekki þá staðla sem settir eru fyrir lögiltar hitamælingar. Mælingarnar þar sýna því líklega of mikinn hita á sólríkum dögum. Þá vaknar hin brennandi spurning: Hvaðan í ósköpunum kom Gísla sú viska að 25 stiga hiti hafi verið í bænum? Munurinn á þeim hita og hámarkshitanum á malbikinu á veðurstöðinni er fjögur stig sem er of mikill til að einhver glóra sé í því. Svo heitt hefur varla orðið á milli húsa í miðbæ Akureyrar nema geislun hafi leikið um mæla. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gísli kemur með hitamælingar frá Akureyri sem eru hreinlega út í hött. Jafnvel mælirinn frægi á ráðhústorginu hefur ekki við honum. Þó er sá mælir alveg örugglega bandvitlaus. Hann er alltof hástemmdur. Fátt er eins vonlaust og hitamælir sem sýnir mörgum stigum of hátt - já, eða of lágt. Þá er enginn mælir betri. Það er bara eitt sem er vonlausara en ruglaður hitamælir. Það er rígur milli héraða um veðrið. Allir landshlutar eiga sína góðu og vondu veðurdaga, sitt sérstaka veðurfar. Bestu dagarnir á Akureyri eru með þeim heitustu sem gerast hér á landi. Þeir eru hrein paradís þó norðansúldin sé að vísu verri en í nokkru helvíti. Þess vegna ættu bæjarbúar að leggja metnað sinn í að láta hitamælinn á aðaltorgi bæjarins greina rétt hitastig.
Um fréttaflutning á svo auðvitað bara ein regla að gilda. Staðreyndir. Fréttir Gísla af veðri fyrir norðan, bæði að sumri og vetri, eru hins vegar þannig að það er því miður ekki hægt að taka mark á þeim. Reyndar hef ég oft furðað mig á því hvernig eiginlega á því stendur að fréttamenn sem almennt flytja traustar og vandaðar fréttir, eins og Gísli, missa skyndilega allra átta þegar þeir segja frá veðrinu. Þá fýkur nákvæmni og vandvirkni út í veður og vind. Þetta getur bara ekki gengið si sona öllu lengur og verður að vinna á því skjóta bragarbót. Fyrir undirritaðan er það alveg sérstaklega mikið hitamál.
Að lokum vona ég innilega að hitametið fjúki á Akureyri í sumar og þrjátíu og fimm stiga múrinn hrynji eins og hver önnur spilaborg.
SIGURÐUR ÞÓR
GUÐJÓNSSON,
Skúlagötu 68, Reykjavík.
Frá Sigurði Þór Guðjónssyni: