Hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Dröfn sigla saman inn í Reykjavíkurhöfn.
Hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Dröfn sigla saman inn í Reykjavíkurhöfn.
VIÐ komu nýja hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar RE 200 til Reykjavíkur í gær lýsti Árni Þór Sigurðsson, formaður stjórnar Reykjavíkurhafnar, því yfir að í breytingum sem framundan væru við austurhöfnina yrði Hafrannsóknastofnuninni, skipum hennar...

VIÐ komu nýja hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar RE 200 til Reykjavíkur í gær lýsti Árni Þór Sigurðsson, formaður stjórnar Reykjavíkurhafnar, því yfir að í breytingum sem framundan væru við austurhöfnina yrði Hafrannsóknastofnuninni, skipum hennar og útgerð, séð fyrir þeirri aðstöðu sem hún þyrfti á að halda til að sinna hlutverki sínu.

Árni Friðriksson er mjög fullkomið rannsóknaskip. Í því er fellikjölur sem hægt er að slaka þrjá metra niður fyrir fastan kjöl skipsins. Í honum er botnstykki fyrir bergmálsmælitæki sem notuð eru við stofnmælingar á uppsjávarfiskum. Með tilkomu þessa búnaðar verður unnt að bergmálsmæla stofna uppsjávarfiska í mun verra veðri en áður var mögulegt. Þetta gjörbreytir allri aðstöðu til bergmálsmælinga, ekki síst að vetrarlagi þegar veður eru válynd.

Öflugur fjölgeislabergmálsmælir verður í skipinu.

Skipið hefur mikinn togkraft sem gerir því kleift að athafna sig með veiðarfæri á djúpslóð. Á síðustu misserum hefur athyglin meðal annars beinst að Suðurdjúpi og Reykjaneshrygg en á því svæði hafa Íslendingar mikilla hagsmuna að gæta.

Í skipinu eru þrjár togvindur. Því verður unnt að toga með tveimur botnvörpum í einu en við það batnar öll aðstaða til veiðarfærarannsókna.

Skjöldur frá Reykjavíkurhöfn

Með tilkomu þessa nýja og fullkomna rannsóknaskips munu möguleikar til rannsókna á umhverfi sjávar og nytjastofnum aukast verulega. Sérstaklega á það við um úthaf og djúpmið við landið.

Árni Þór sagði að framtíð austurhafnarinnar, þar sem m.a. Miðbakkinn er, hefði verið talsvert til umfjöllunar að undanförnu og ráðgert væri í samstarfi ríkisstjórnar og borgarstjórnar að skipuleggja tónlistar- og ráðstefnuhús á mörkum hafnar og miðborgar.

Fyrir hönd Reykjavíkurhafnar bauð Árni Þór Árna Friðriksson velkominn til heimahafnar, afhenti Guðmundi Bjarnasyni skipsstjóra skjöld frá Reykjavíkurhöfn og óskaði áhöfninni, Hafrannsóknastofnun og landsmönnum öllum til hamingju með þetta glæsilega skip.