HJÖRTUR Harðarson og Gunnar Einarsson hafa báðir skrifað undir samning um að leika með Keflvíkingum í körfuknattleiknum næsta vetur og fara því hvergi eins og orðrómur hafði verið uppi um.
HJÖRTUR Harðarson og Gunnar Einarsson hafa báðir skrifað undir samning um að leika með Keflvíkingum í körfuknattleiknum næsta vetur og fara því hvergi eins og orðrómur hafði verið uppi um.

HANNA Guðrún Stefánsdóttir hefur gengið til liðs við knattspyrnulið FH úr Haukum , en hún er þekkt handknattleikskona með Haukum. Hanna er 21 árs gömul og lék með Haukunum í efstu deild knattspyrnunnar 1998.

LOUIS van Gaal , þjálfari Barcelona hefur boðað blaðamannafund á laugardaginn þar sem hann hyggst gera grein fyrir framtíðaráformum sínum og þá m.a. hvort hann hyggist vera áfram hjá Barcelona.

Van Gaal sagðist í gær ekki vera búinn að gera upp hug sinn um framhaldið hjá Barcelona . "Nú um stundir á síðasti leikurinn í deildinni, gegn Celta , á föstudaginn hug minn allan," sagði Gaal í gær. Barcelona er nú í öðru sæti spænsku deildarinnar fyrir lokaumferðina annað kvöld, þremur stigum á eftir Deportivo sem mætir Espanyol í lokaumferðinni.

ZINEDINE Zidane , leikstjórnandi Juventus, segist aldrei hafa liðið eins illa á knattspyrnuferli sínum og sl. sunnudag þegar ítalski meistaratitillinn gekk Juventus úr greipum í lokaumferðinni.

ALBERT Celedes , miðvallarleikmaður Celta Vigo og spænska landsliðsins, leikur á morgun í síðasta leik fyrir félagið þegar það mætir Barcelona. Celedes hefur verið í sjö ár í herbúðum Celta , en nú er samningur hans við félagið á enda og kappinn segir mál til komið að reyna fyrir sér annars staðar. Celedes segist vera búinn að gera samning við annað félag en vill ekki gefa upp nafn þess að sinni.

FERNANDO Hierro , fyrirliði Real Madrid, leikur sennilega með félögum sínum gegn Valencia í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu nk. miðvikudag. Það þykja nokkur tíðindi þar sem kappinn hefur ekki leikið með Real í tvo mánuði vegna meiðsla.

VRARISLAV Lokvenc , framherji Spörtu frá Prag, var í gær seldur til Kaiserslautern fyrir 220 milljónir króna. Gerði hann þriggja ára samning við þýska félagið. Lokvenc er markahæstur í tékknesku deildinni á leiktíðinni, hefur skorað 22 mörk.

EKKI er loku fyrir það skotið að samherji Lokvenc , varnarmaðurinn Petr Gabriel , gangi einnig í raðir Kaiserslautern. Þriðji leikmaðurinn er líklega á förum frá Spörtu því miðvallarleikmaðurinn Miroslav Baranek er að öllum líkindum á leið til Köln fyrir rúmar 100 milljónir króna.

FABIEN Barthez , markvörður Mónakó og franska landsliðsins, segir það vera algjörlega úr lausu lofti gripið að hann sé á leið til Manchest er United . Hann hafi ekkert boð fengið frá félaginu og hafi í raun engan áhuga á að fara frá Mónakó eftir að ágreiningur hans og þjálfarans leystist fyrir skömmu.

STUÐNINGSMENN ítalska félagsins Fiorentina hafa vægast sagt tekið þeim fréttum illa að stjarna liðsins, Gabriel Batistuta , sé tilbúinn að yfirgefa félagið og ganga annaðhvort Roma eða Internaziona le á hönd. Sagt er Roma sé tilbúið að greiða um 1,7 milljarða fyrir kappann. Stuðningsmenn liðsins eru hins vegar afar óánægðir og hóta að sniðganga heimaleiki liðsins á næstu leiktíð, auk þess sem þeir hafa þegar tekið upp á ýmsum mótmælum.