Smellsmiðirnir í Skítamóral tóku sér nokkurra mínútna pásu frá smíðum fyrir ljósmyndarann.
Smellsmiðirnir í Skítamóral tóku sér nokkurra mínútna pásu frá smíðum fyrir ljósmyndarann.
Nú fer að koma að því að sumarsmellunum fer að rigna yfir þjóðina. Hljómsveitin Skítamórall er þessa dagana í hljóðveri að hljóðrita framlag sitt fyrir sumarið. Birgir Örn Steinarsson, sem veit hvað "allir þessir takkar á skrítna borðinu" gera, heimsótti piltana í verið.

Það er hægt að líkja íslensku tónlistarári við fótboltaleik. Í fyrri hálfleik, sem er sumarvertíðin er fólk mun afslappaðra og orkumeira. Þá kemur út aragrúi af tónlist sem til þess eins er gerður að framkalla bros á drukknum vörum ballgesta. Í seinni hálfleik, jólavertíðinni, verða allir snælduvitlausir af stressi og aðeins sú dýrslega frumhvöt að ryðja keppinautum sínum úr vegi til þess að skora mark áður en dómarinn flautar til leiksloka ræður ríkjum.

Hljómsveitin Skítamórall hefur verið ein af vinsælustu hljómsveitum sumarvertíðarinnar síðastliðin þrjú ár og verður að teljast með þeim duglegustu. Söngmelódíur þeirra hafa fest sig það fast inn í þjóðarsálina að jafnvel hörðustu flösuþeytarar hafa staðið sig að því að raula lögin þeirra á rölti sínu um bæinn, þótt þeir myndu líklegast aldrei viðurkenna það.

Tvö ný lög í sumar

Piltarnir eru þessa dagana staddir í Grjótnámunni að hljóðrita næstu tvo slagara sem munu eflaust bergmála af vörum þjóðarinnar í sumar.

"Við erum að vinna í nýju umhverfi, með nýjum mönnum," segir Addi Fannar, gítarleikari Skítamórals. "Lögin sem við erum að taka núna upp enda á safnplötunni "Svona er sumarið 2000"," sem er þriðja platan í sumarsafnplöturöð Skífunnar, þar sem óhagganlegir listamenn hrista fram grípandi dægurflögur úr ermavösum sínum jafnt því sem nýjar stjörnur fæðast. "Þetta er sumarsafnplata, og er óvenjulega sterk þetta árið," segir Addi Fannar.

Skítamóralsmenn hafa gefið út plötu síðastliðin fjögur sumur en hafa ákveðið þetta árið að lögin tvö, sem enda á safnplötunni, verði þau einu sem hljómsveitin gefur frá sér þetta sumarið. Þeir fullyrða þó að þeir eigi nægt efni á lager nú þegar í tvær breiðskífur. Þeir segja að svona geti hljómsveitin endurhlaðið batteríin og komið ferskari að sumrinu en áður. "Í fyrra vorum við allt of lengi í hljóðverinu," útskýrir Addi Fannar. "Við vorum tæpa fjóra mánuði að gutla."

"Svo vorum við líka í fullri spilamennsku og í vinnu líka," bætir Einar Ágúst við og virðist enn hálfvankaður eftir ævintýri sitt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. "Þegar hlutir eru farnir að taka svona mikið af manni er geðheilsan oft í húfi," bætir hann við á merkilega sannfærandi hátt.

Söngvaraskipti?

Sú óvenjulega þróun hefur orðið í hljómsveitinni á síðustu tveimur árum að Gunnar, sem áður var einn söngvari hljómsveitarinnar, deilir nú sviðsljósinu með Einari Ágústi, sem hefur verið styst í hljómsveitinni. Er hugsanlegt að Gunnar sé að reyna draga sig úr kastljósinu til að nýliðinn geti fengið meira pláss? "Við skiptum þessu alveg jafnt á milli okkar," útskýrir Einar Ágúst. "Þetta hefði aldrei getað gerst nema með lokasamþykki Gunna. Þetta einhvernveginn æxlaðist svona. Ég hef oft sagt og segi það enn að mér finnst Gunnar vera einn óeigingjarnasti tónlistarmaður á Íslandi fyrir að láta þetta gerast."

"Það eru tveir aðalsöngvarar í hljómsveitinni," bætir Addi Fannar við. "Þeir skipta t.d. þessum tveimur nýju lögum á milli sín."

Síðan benda þeir piltar á að það sé gífurlegur kostur að hafa tvo söngvara í hljómsveitinni, t.d. ef annar skyldi næla sér í kvef fyrir ball.

Tímamót

Eiga aðdáendur von á einhverjum tónlistarbeygjum með nýju lögunum?

"Þetta eru náttúrulega rosaleg tímamót á ferli okkar að vinna með Þorvaldi Bjarna," segir Einar Ágúst. "Hann kemur líklega með ferskar hugmyndir fyrir okkur þannig að við getum núna tekið skref lengra í tónlistinni." En skyldi vera einhver formúla fyrir smellsmíðum? "Það sem kemur út úr hljómsveitinni er bara það sem dettur út úr okkur hverju sinni og það sem hentar okkur," útskýrir Einar Ágúst. "Við erum bara mjög heppnir með það að ná mjög vel saman á þessum forsendum. Við megum ekki skipta um flokk, það held ég að gerist alls ekki."

"Við færum aldrei að svíkja neinn," bætir Addi Fannar við. "Fólk gengur bara að okkur eins og við erum."