Matthew Perry og Oliver Platt í hlutverkum sínum í gamanmyndinni Þrjú í tangó. Neve Cambell og Perry rugla saman reitum við kyndugar kringumstæður í gamanmyndinni.
Matthew Perry og Oliver Platt í hlutverkum sínum í gamanmyndinni Þrjú í tangó. Neve Cambell og Perry rugla saman reitum við kyndugar kringumstæður í gamanmyndinni.
Kringlubíó, Bíóhöllin, Bíóborgin, Nýja bíó Akureyri og Nýja bíó Keflavík frumsýna gamanmyndina Three to Tango með Matthew Perry.

Oscar Novak ( Matthew Perry ) er ungur arkítekt á uppleið. Hann hefur gengið frá risasamningi ásamt félaga sínum, Peter Steinberg ( Oliver Platt ), við auðjöfurinn Charles Newman ( Dylan McDermott ) um hönnun listamiðstöðvar í Chicago.

Charles finnst svo mikið til Oscars koma að hann biður hann að gera sér persónulegan greiða, njósna um hjákonu sína, Amy ( Neve Campbell ). Í stuttu máli sagt reynist Oscar einstaklega lélegur spæjari og það sem meira er, hann fellur kylliflatur fyrir Amy meðan á spæjarastörfunum stendur.

Forlögin leika Oscar grátt og áður en hann veit af er hann einhver frægasti samkynhneigði maðurinn í allri Chicago og á sá misskilningur eftir að vaxa í allar áttir áður en yfir lýkur.

Þannig er að nokkru leyti söguþráðurinn í rómantísku gamanmyndinni Þrjú í tangó eða Three to Tango sem frumsýnd er í fimm kvikmyndahúsum á landinu núna um helgina. Leikstjóri hennar er Damon Santostefano en með aðalhlutverkin fara Matthew Perry , Neve Campbell , Dylan McDermott og Oliver Platt . Handritið gerir Rodney Vaccarro .

Það er byggt á persónulegri reynslu sem hann varð fyrir. Hann vann áður á auglýsingastofu og hitti Joan , konu sem þá bjó með yfirmanni hans. Röð óvæntra atvika hagaði því svo til að Vaccaro og Joan gengu í hnapphelduna og í leiðinni varð til handritið Þrír í tangó.

Þetta var árið 1990 og því hefur myndin verið lengi á leiðinni. Framleiðandinn Bettina Sofia Vivano keyti réttinn fyrir áratug og var í átta ár að reyna að koma því á koppinn. "Það var sama hvað á gekk, ég hélt alltaf tryggð við handritið," er haft eftir henni. "Mér fannst það frábært og ég vissi að það átti eftir að verða úr því frábær bíómynd."

Um síðir var málið komið á þann rekspöl að fundinn var leikstjóri og varð Damon Santostefano fyrir valinu en hann hefur unnið nokkuð við tónlistarmyndbönd. "Mér fannst handritið frábærlega fyndið," er haft eftir honum. "En að auki fjallaði það um persónur af holdi og blóði."

Þegar kvikmyndagerðarmennirnir tóku að huga að leikara í aðalhlutverkið varð Matthew Perry fljótlega fyrir valinu . Perry er sjálfsagt kunnastur fyrir að leika Chandler Bing í sjónvarpsþáttunum Vinum og honum leist vel á Þrjú í tangó. "Ég bíð eftir því að fá góð handrit í hendur og þetta var eitt af þeim," segir hann. "Mér fannst persónan áhugaverð. Hann hefur átt erfitt með að umgangast kvenfólk allt sitt líf en núna þegar hann þarf að þykjast vera samkynhneigður getur hann óhræddur kynnst því hvernig konur hugsa og verður ástfanginn upp fyrir haus."