HEILDARÞÁTTTAKA í hópleit Krabbameinsfélags Íslands að brjóstakrabbameini hefur lengst af verið um eða rétt yfir 60%, sem þykir lélegt miðað við mörg önnur lönd. Tölur þessar vekja nokkra furðu, ekki síst í ljósi þess að brjóstakrabbamein er langalgengast krabbameina meðal íslenskra kvenna og dregur til dauða 40-50 konur á ári hverju. Krabbameinsfélagið hefur nú hafið átak, í því skyni að auka skilning og glæða áhuga kvenna á því mikilvæga forvarnastarfi sem felst í hópleit að brjóstakrabbameini.
Baldur F. Sigfússon, sérfræðingur í geislagreiningu, er yfirlæknir röntgendeildar Krabbameinsfélagsins og Guðrún Ragnarsdóttir röntgentæknir er deildarstjóri sömu deildar. Að þeirra sögn þyrfti heildarþáttaka kvenna í hópleitinni að vera a.m.k. 75% til að teljast viðunandi og helst 80-85%. "Aðsóknin er verst á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Akureyri, sem vegur auðvitað mjög þungt," segir Guðrún. "Á flestum öðrum stöðum úti á landi er þátttakan annars nokkuð góð og sums staðar ágæt, þ.e. um eða rétt yfir 80%. Til samanburðar má nefna að í Svíþjóð er þátttaka í hópleit að brjóstakrabbameini yfir 80% í heild og í Finnlandi nær 90%.
Óskiljanlegt sinnuleysi
- En hver skyldi vera skýringin á lélegri þátttöku íslenskra kvenna í hópleit að brjóstakrabbameini og af hverju ætli konur búsettar úti á landi séu samviskusamari í þessum efnum en þær sem búa á suðvesturhorni landsins og á Akureyri?"Ég held að sú staðreynd ráði miklu að við Íslendingar erum ekkert sérstaklega hlýðin þjóð," segir Baldur. "Auk kæruleysis um eigin hag eru hugsanlegar skýringar á lélegri þátttöku m.a. hræðsla við geislun eða við óþægindi í myndatökunni og jafnvel hræðsla við að eitthvað finnist við rannsóknina. Varðandi landsbyggðarkonur þá er það reynsla þeirra sem starfa að heilbrigðismálum að mæting er ávallt betri í sveitum í hvers kyns tegund leitar. Hópleit að krabbameini í leghálsi og brjóstum fer fram allan ársins hring á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Reykjavík og á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Einmitt á þessum stöðum er þátttaka kvenna í hópleitinni lélegust og ef til vill er skýringin sú að þessum konum finnst þær hafa nægan tíma og ekkert liggi á. Skipulögð leit er á 40 öðrum stöðum um land allt og mætir þá starfsfólk Leitarstöðvarinnar í Reykjavík á fyrirfram ákveðnum tímum. Þannig eru konur búsettar úti á landi undir annars konar tímapressu og hugsanlega ræður það miklu um það hversu samviskusamlega þær taka þátt í hópleitinni.
Baldur segir það vissulega vekja furðu að íslenskar konur skuli í heild ekki nýta sér betur þessa mikilvægu heilbrigðisþjónustu, sem telja megi til forréttinda. "Fólk horfir framhjá því sem vitað er um heilbrigðismál, gott dæmi eru reykingar, segir hann. "Konur eru minntar á á tveggja ára fresti þegar komið er að því að panta tíma í brjóstaskoðun, sem er auk þess ódýr enda niðurgreidd af almannafé. Samt taka margar konur seint og illa við sér. Auðvitað er þetta óskiljanlegt sinnuleysi og hörmulegt að konur skuli ekki nýta sér þjónustuna.
Það verður að segjast eins og er að við sem störfum að þessum málum hér erum orðin býsna þreytt á þessu og finnst eðlilega að hlutirnir ættu að ganga miklu betur. Það er ekki laust við að maður skammist sín á erlendum ráðstefnum sem snúast um brjóstakrabbamein, vegna þess hve mætingin í hópleit er vond á Íslandi.
Áhættan eykst með aldrinum
Hópleit vegna leghálskrabbameins nær til allra kvenna hér á landi á aldrinum frá tvítugu til sjötugs, og frá fertugu eru konur jafnframt boðaðar á tveggja ára fresti í röntgenmyndatöku af brjóstum.Að sögn Guðrúnar er meginforsenda almennrar hópleitar að brjóstakrabbameini sú, að lífslíkur eru almennt bestar ef meinið finnst snemma. "Annar mikilvægur ávinningur af því að finna brjóstakrabbamein á meðan það er lítið er sá að þannig gefst mun fleiri konum en ella kostur á minni aðgerð, svokölluðum fleygskurði, í stað þess að allt brjóstið sé tekið," segir Guðrún. "Mikilvægt er að konur láti ekkert hafa áhrif á það að þær mæti reglulega í brjóstamyndatöku. Sannað er að hafi náinn ættingi konu greinst með brjóstakrabbamein er hún í aukinni hættu að fá sjúkdóminn. Konur án slíkrar ættarsögu virðast margar halda að þær hafi ekkert að óttast, en það er mikill misskilningur. Meira en 80% kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein eiga enga nána ættingja með sjúkdóminn. Þá er rétt að benda á að hætta á brjóstakrabbameini eykst almennt með aldrinum og því gefa nokkrar eðlilegar hópmyndatökur í röð ekki aukið öryggi upp frá því.
Guðrún segir sumar konur kjósa að láta eigin kvensjúkdómalækni annast reglulega leit að leghálskrabbameini og ekkert sé við það að athuga. "Vandamálið er að margar þessara kvenna trassa að mæta aukalega í brjóstamyndun hjá Krabbameinsfélaginu enda þótt þær séu minntar á það sérstaklega á tveggja ára fresti.
Brýnt er að konur geri sér ljóst að eftir að þær hafa náð fertugsaldri mega þær ekki treysta eingöngu á þreifingu brjósta, jafnvel þótt slíkt sé framkvæmt reglulega af kvensjúkdómalækni. Raunin er nefnilega sú að liðlega helmingur krabbameina sem finnast við hópleit með myndatöku er hulinn, þ.e.a.s. alls ekki áþreifanlegur.
Konur hvetji hver aðra
Að sögn Baldurs hefur mæting í hópleit Krabbameinsfélagsins aukist að undanförnu, en reyndar hafa slíkir kippir orðið áður. "Eiginlega hefur verið fullbókað hjá okkur í brjóstamyndatökur upp á síðkastið og það er auðvitað afar ánægjulegt," segir hann. "Trúlega eru þetta viðbrögð við umfjöllun Kastljóss Sjónvarpsins um brjóstakrabbamein í mars sl., en þar var m.a. rætt við tvær konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein. Skömmu síðar kom ég fram í viðtali Ríkisútvarpsins og í kjölfarið tóku konur greinilega við sér og pöntuðu tíma í skoðun. Við viljum auðvitað að þetta haldi svona áfram og að konur hvetji hver aðra til að mæta reglulega í brjóstamyndatöku. Við höfum reynt að benda konum á að þetta snúist ekki aðeins um þær; líka verði að hugsa um hag barna og maka og því sé þetta í sjálfu sér fjölskyldumál.Átak Krabbameinsfélagsins, sem stendur fram eftir ári, er ætlað að auka skilning og glæða áhuga kvenna á hópleit að brjóstakrabbameini. "Við höfum látið útbúa veggspjöld og verður þeim t.d. dreift á sundstaði og heilsuræktarststöðvar," segir Guðrún. "Á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins er jafnframt kappkostað að veita sem besta þjónustu og er lögð áhersla á að veita tíma í myndatöku með styttri fyrirvara en áður svo og stytta dvöl á biðstofu. Að auki hefur sú breyting orðið á tækjabúnaði að brjóstamyndatakan veldur konum nú minni óþægindum en áður, þar sem pressa, sem notuð er til að auka myndgæði og greiningaröryggi, hefur minnkað. Við hvetjum konur til að mæta reglulega á tveggja ára fresti í brjóstamyndatöku og þreifa að auki sjálfar brjóst sín mánaðarlega. Á Leitarstöðinni er konum boðið að horfa á kennslumyndband um brjóstaskoðun, svo og að æfa sig sjálfar í að þreifa brjóstlíkan með fjórum mismunandi gerðum hnúta. Hópleit Krabbameinsfélagsins að brjóstakrabbameini nær til kvenna á aldrinum 40-70 ára og virðast margar konur halda að þær megi ekki koma eftir það. Það er hins vegar mikill misskilningur, þær eru velkomnar áfram á tveggja ára fresti, þótt þær fái ekki bréf."