Wes Bentley sem Montgomery Clift Einn margra sem áttu stórleik í Amerískri fegurð er nýgræðingurinn Wes Bentley . Sýndi og sannaði með öguðum leik að hann er kominn til að vera.
Wes Bentley sem Montgomery Clift
Einn margra sem áttu stórleik í Amerískri fegurð er nýgræðingurinn Wes Bentley . Sýndi og sannaði með öguðum leik að hann er kominn til að vera. Aukinheldur með þetta eftirsótta "kvikmyndastjörnuútlit", sem vegur þungt í háborg iðnaðarins. Það hefur ráðið því, engu síður en hæfileikarnir, að nú fara fram viðræður við Bentley um að hann taki að sér hutverk leikarans Montgomerys Clifts í hinni sjálfsævisögulegu Monty. Upptökur eiga að hefjast vorið 2001. Lífshlaup Montys , eins og hann var jafnan kallaður, var með eindæmum sorglegt. Samkynhneigður, sem ekki þótti affarasælt á þeim tíma sem hann var á toppnum, á sjötta áratugnum, og leiddi, öðru fremur, til óhóflegrar áfengis- og annarrar eiturlyfjaneyslu. Reiðarslagið kom '59, er hann vann við tökur á Suddenly, Last Summer, ásamt bestu vinkonu sinni, Elizabeth Taylor . Monty lenti í bílslysi sem rústaði andliti hans, sem þótti einstaklega frítt. Þá hófst hröð niðurtalning á ferli þessa skarpgreinda og hæfileikaríka leikara, sem var meira annt um útlitið en flest annað í lífinu. Á myndin að spanna árin frá 1947 til dauðadags Montys , '67. Bentley vakti hins vegar talsvert umtal fyrir skömmu, er hann hætti störfum við gerð hrollvekjunnar Queen of the Damned, kenndi um strangri uppsveiflu á árinu 1999, er hann lauk við Ameríska fegurð, Soul Survivors og Kingdom Come.
Hayden í hlutverk geimgengils
Miklar vangaveltur hafa verið í gangi um hver muni leika Anakin , eitt aðalhlutverkið í næstu Stjörnustríðsmynd, Episode 2. Menn þurfa ekki að velkjast lengur í vafa. Samkvæmt nýjustu fréttum hrepptu hnossið hvorki Leonardo Di Caprio né aðrir þeir sem sagðir hafa verið "heitir", heldur nánast óþekktur 19 ára Kanadamaður, Hayden Christensen að nafni. Hann mun fara með hlutverk Anakins geimgengils sem síðar gengur illu öflunum á vald og verður Darth Vader , gamall kunningi Stjörnustríðsunnenda. Natalie Portman og flestir aðrir leikendur Episode I. munu halda vinnunni.