AGORA, alþjóðleg fagsýning þekkingariðnaðarins, verður haldin í Reykjavík 11. til 13. október næstkomandi í samstarfi við FBA, Íslenska erfðagreiningu, OZ.COM og Samtök iðnaðarins. Í tengslum við sýninguna verður efnt til málþings undir yfirskriftinni "Þekkingarþjóðfélagið Ísland". Leitað hefur verið til þekktra erlendra fyrirlesara úr röðum alþjóðafyrirtækja, ráðgjafa og frá virtum háskólum til að taka þátt í þinginu. Þá verður einnig efnt til ritgerðarsamkeppni meðal 11 ára barna um framtíðarsýn þeirra, t.d. daglegt líf árið 2030 eða menntun í framtíðinni. Menntamálaráðherra verður verndari ritgerðarsamkeppninnar, sem verður kynnt nánar með bréfi til forráðamanna barnanna í ágústlok.
Sæmundur Norðfjörð, formaður AGORA, sagði á blaðamannafundi í gær, þar sem sýningin og það sem er í tengslum við hana var kynnt, að mikið væri lagt upp úr þátttöku erlendra aðila. Erlend stórfyrirtæki sem ættu mikilla viðskiptalegra hagsmuna að gæta hér á landi, svo sem Ericsson, Nokia, IBM, Hewlett Packard og Microsoft væru öll líkleg til þátttöku. Þá hafi ýmis erlend fagtímarit boðað komu sína. Sæmundur sagði þó, að ekkert þeirra erlendu stórfyrirtækja, sem sýningin hefur verið kynnt fyrir, og enginn þeirra erlendu fyrirlesarara, sem leitað hefur verið til, hafi enn staðfest þátttöku. Megináherslan með AGORA er að hvetja Íslendinga, jafnt stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklinga, til virkrar þátttöku í þekkingarþjóðfélaginu. Þá er sýningunni ætlað að veita innsýn í rekstur fyrirtækja, auk þess sem þeim gefst tækifæri til að koma upplýsingum á framfæri til væntanlegra innlendra og erlendra gesta.
AGORA er markaðssett jafnt meðal innlendra og erlendra fyrirtækja sem hafa haslað sér völl á Netinu, í fjarskiptum, hátækni og hugbúnaði. Einstaklingar, sem eru með hugmyndir um þekkingarþróun, geta einnig sótt um að kynna hugmyndir sínar á sérstöku svæði sem verður á sýningunni. Þeir sem fá þar aðgang munu njóta sérstakrar aðstoðar við kynningu sinna hugmynda.
Í tengslum við AGORA verður efnt til svonefnds framtakstorgs í samvinnu við framtaksfjárfestana Arctic Ventures og Talentu hf.