Maríus Aðalbjörnsson Gröndal fæddist í Reykjavík 30. september 1980. Hann lést 5. maí síðastliðinn og fór útför hans fram frá Fossvogskirkju 12. maí.

Hvað hefur unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, Unnusti minn er mjall- hvítur og rauður, Hann ber af tíu þúsund- um. Höfuð hans er skíragull, Hinir hrynjandi hárlokkar hans hrafnsvartir. (Ljóðaljóðin 5. 9-12.)

Hvað hefur unnusti þinn

fram yfir aðra unnusta,

Unnusti minn er mjall-

hvítur og rauður,

Hann ber af tíu þúsund-

um.

Höfuð hans er skíragull,

Hinir hrynjandi hárlokkar hans

hrafnsvartir.

(Ljóðaljóðin 5. 9-12.)

Ég byrja þessa minningargrein á orðum sem þú varst vanur að segja við mig þegar við vorum saman: "Þú ert ástin í lífi mínu."

Mér finnst rosalega sárt að ástin í lífi mínu sé farin frá mér en eftir lifa minningar sem ég mun aldrei gleyma. Þótt við þekktumst ekki í mörg ár, þekktumst við samt svo ótrúlega vel, daginn sem þú lést sagðir þú við mig: "Alma, þú þarft stundum ekki að segja hlutina, ég þekki þig svo vel að ég sé hvað þú ert að hugsa." Okkur leið best þegar við vorum bara tvö ein saman enda vorum við oft bara tvö, þú vildir eiga mig, ég vildi eiga þig. Við elskuðum hvort annað svo mikið að við varla höndluðum það þótt við þrættum inni á milli. Ég var stolt af að vera með þér og eiga þig sem unnusta, það var svo oft sagt við mig: "Alma, vá hvað þú átt fallegan kærasta," og ég er alveg sammála því, þú varst alltaf sætastur af öllum. Oft þegar við vorum einhversstaðar kom fólk til okkar og talaði um hvað við værum flott par og sæt saman. Þegar við fórum og keyptum okkur föt, keyptum við okkur föt í stíl. Þegar þú klæddir þig sagðirðu: "Alma, ég ætla að vera í þessum fötum," og þá klæddi ég mig í föt sem pössuðu við þín. Þú varst svo mikill snyrtipinni og ég var alltaf eitthvað að dúlla við þig, í ófá skipti tók ég þig í húðhreinsun, kreisti fílapensla, setti þig í fótabað og hvaðeina, þér leið svo vel á eftir. Þegar við bjuggum hjá mömmu var herbergið mitt alltaf svo fínt, ólíkt því sem það hafði verið áður en þú komst til sögunnar en tiltektarsemi þín var eins og hvítur stormsveipur. Auk þess að vera unnusti minn varstu líka minn besti vinur, við gátum talað um allt milli himins og jarðar, ég gat alltaf sagt þér hvað mér bjó í brjósti, verið ég sjálf með þér. Við gátum líka grátið saman og tveimur dögum áður en þú lést sátum við í bílnum og grétum saman í langan tíma. Þú varst orðinn veikur, það reyndi svo mikið á þig að í tvo daga lástu í rúminu, ég sat yfir þér með blautan þvottapoka til að kæla þig niður, ef ég stóð upp til að sækja eitthvað tókstu í höndina á mér og sagðir: "Alma, ekki fara, vertu hjá mér, þú mátt aldrei fara frá mér aftur." Við vorum búin að plana svo margt, ætluðum að gera svo margt saman, kaupa íbúð, bíl, trúlofa okkur og við töluðum um það einmitt daginn sem þú lést. Það var alveg sama hvað bjátaði á, hvað kom upp á, þú varst svo snjall að finna ráð við öllu og leysa vandann einhvern veginn. T.d. þegar við vorum í íbúðarleit eitt skiptið þá sagðirðu: "Við leggjum bara bílnum okkar uppi í sveit og búum í honum, svo kaupum við nýjan bíl og notum hann fyrir bíl." Það eru svo margar minningar sem ég geymi í hjarta mínu sem enginn veit nema við tvö. Ég ætla að standa mig með Guðs hjálp en það er svo sárt að vera án þín. Ég er svo þakklát Guði fyrir að hafa kynnst þér og fyrir að hafa hlotnast sá heiður að fá að vera með þér síðustu stundirnar sem þú lifðir, að hafa fengið að vera síðasta manneskjan sem þú tókst utan um, kysstir og sagðist elska. Ég veit að nú ertu hjá Jesú og hann passar þig og litla barnið okkar en einhverntíma sjáumst við aftur þegar ég kem til ykkar í eilífðina og þá mun ekkert aðskilja okkur aftur. Ég kveð þig elsku Marri og bið Drottin Jesú Krist að styrkja ástvini þína sem eiga um sárt að binda.

Í hvílu minni um nótt leitaði ég hans

sem sál mín elskar

Ég leitaði hann en fann hann ekki.

(Ljóðaljóðin 3.1.)

Þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu. Ég elska þig.

Þín unnusta,

Alma Rut.

Alma Rut.