Söngkonurnar Violet Chang og Margareta Haverinen.
Söngkonurnar Violet Chang og Margareta Haverinen.
Í Salnum í Kópavogi hefur síðustu dagana staðið yfir sannkölluð söngveisla en henni lauk í gærkvöldi með hátíð til heiðurs Halldóri Hansen barnalækni og tónlistarunnanda. Margrét Sveinbjörnsdóttir brá sér í Kópavoginn í gær og náði tali af finnsku söngkonunni Margaretu Haverinen og hinni kínversku Violet Chang.

"ÉG KYNNTIST Halldóri Hansen í gegnum Dalton Baldwin. Við hittumst fyrst fyrir um tuttugu árum í New York, þar sem ég stundaði nám," segir finnska sópransöngkonan Margareta Haverinen. Baldwin hafði leyft Halldóri að heyra hljóðritanir af söng hennar og heillaðist sá síðarnefndi. Eftir þennan fyrsta fund þeirra hafa þau skipst á bréfum. "Við tölum um allt í heiminum í þessum bréfum okkar," segir hún.

"Halldór er ein af þeim fáu manneskjum sem ég þekki sem dæmir ekki. Ég hef aldrei heyrt hann gagnrýna nokkurn mann eða hallmæla nokkrum. Hann hefur sinn eigin smekk en hann metur fólk eins og það er og reynir ekki að breyta því - þó að hann geti látið í ljósi sínar skoðanir," segir Haverinen. Hún kveðst hafa verið mjög ung þegar hún hitti hann fyrst og þau hafi strax tengst órjúfanlegum böndum. "Halldór er barnalæknir og hefur mjög næman skilning á börnum og ungmennum. Og svo býr hann yfir þessari ástúðlegu ró," segir hún og bætir við að sjálf hafi hún aldrei átt föður og því hafi það verið kærkomið að tengjast Halldóri svo sterkum böndum.

"Halldór tók mér sem þeirri manneskju sem ég var"

"Oft er það þannig með hæfileikaríkar ungar manneskjur að allir vilja breyta þeim og móta eins og leir. Segja að maður eigi að gera svona eða hinsegin. Halldór leyfði mér að vera ég sjálf og reyndi ekki að breyta mér. Hann tók mér sem þeirri manneskju sem ég var. Það var stórkostlegt."

Haverinen neyddist til að aflýsa tónleikum í Stokkhólmi sl. föstudag sökum slæmsku í hálsi og var orðin dauðhrædd um að þurfa líka að hætta við að syngja á Íslandi. "Þegar ég fór að hugsa mig um sá ég þó að þetta snerist ekki eingöngu um að syngja á tónleikum heldur fyrst og fremst að hitta Halldór og gleðja hann," segir hún og er yfir sig sæl með að vera komin alla leið. Og röddin er öll að koma til.

Jörðin, vindurinn og vatnið

Það var líka píanóleikarinn kunni Dalton Baldwin sem kynnti kínversku sópransöngkonuna Violet Chang fyrir Halldóri Hansen á sínum tíma. Hún hefur einu sinni áður komið hingað til lands. "Það eru mörg ár síðan. Þá söng ég m.a. fyrir forsetann, frú Vigdísi Finnbogadóttur," segir hún.

Violet Chang er heilluð af íslenskri náttúru. "Ég trúi því að jörðin, vindurinn og vatnið móti manneskjuna - og röddin er sálin," segir hún. Auk þess að taka þátt í sönghátíðinni í Salnum og hylla Halldór Hansen kveðst hún vera hingað komin til að efla tónlistarleg tengsl Íslands og Kína, m.a. með því að fá efnilega íslenska söngvara til að taka þátt í fyrstu stóru alþjóðlegu kínversku söngvarakeppninni sem haldin verður í Guangdong í Suður-Kína í nóvember næstkomandi. "Mig langar til að bjóða fjórum íslenskum söngvurum að taka þátt í keppninni," segir hún og nefnir í því sambandi sérstaklega Finn Bjarnason, sem hún hefur mikinn hug á að fá í keppnina. Auk þess langar hana til að finna fallegt íslenskt þjóðlag til að bæta á efnisskrá sína.

Komin til að sækja inniskóna

Violet Chang er fleira til lista lagt en að syngja, því hún hefur mikið yndi af matargerð. Hún rifjar upp fyrstu heimsókn sína til Halldórs en þá bjó hún heima hjá honum og eldaði dýrindis krásir. "Og svo lásum við upp ljóð hvort fyrir annað og við grétum bæði og hlógum. Eftir tónleikana fór ég út með ljóðskáldi, leikara, gítarleikara og dansara og við dönsuðum alla nóttina. Ég var orðin svolítið sein út á flugvöll um morguninn, svo ég þurfti að pakka niður með miklum hraði og gleymdi inniskónum mínum. Síðan eru liðin mörg ár og í hvert sinn sem ég hef hitt Halldór síðan í New York hefur skóna borið á góma. Hann segir alltaf: "Ég ætla ekki að koma með skóna til þín, þú kemur sjálf og sækir þá." Og nú er ég loksins komin til að ná í skóna," segir Chang, sem lét heldur ekki hjá líða í þetta sinn að leika listir sínar í eldhúsi Halldórs. "Við Dalton Baldwin sáum um matinn, hann eldaði spaghetti og ég gerði "cosmopolitan"-salat byggt á franskri uppskrift, auk þess sem ég hafði með mér ýmislegt góðgæti frá Kína," segir hún.