7. júlí 2000 | Kvikmyndablað | 557 orð | 2 myndir

Tuttugu og fimm og tíu ára

Friðrik Þór Friðriksson, helstu verk: Nomina sunt odiosa (experiment, 1975), Brennu-Njálssaga (experiment, 1980), Eldsmiðurinn (heimildarm., 1981), Rokk í Reykjavík (heimildarm., 1982), Kúrekar norðursins (heimildarm., 1984), Hringurinn (experiment, 1985),
Friðrik Þór Friðriksson, helstu verk: Nomina sunt odiosa (experiment, 1975), Brennu-Njálssaga (experiment, 1980), Eldsmiðurinn (heimildarm., 1981), Rokk í Reykjavík (heimildarm., 1982), Kúrekar norðursins (heimildarm., 1984), Hringurinn (experiment, 1985),
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Friðrik Þór Friðriksson getur á þessu ári fagnað tvennum tímamótum á ferli sínum sem kvikmyndagerðarmanns. Tuttugu og fimm ár eru síðan fyrsta verk hans, Nomina sunt odiosa (Nöfn eru óþörf), var frumsýnt og tíu ár síðan hann stofnaði fyrirtæki sitt, Íslensku kvikmyndasamsteypuna. Páll Kristinn Pálsson spjallaði við Friðrik Þór af þessu tilefni.
"ÉG upplifi þetta nú ekki eins og ég hafi náð einhverjum áfanga. Maður heldur bara sínu striki og verður eldri og þreyttari," segir Friðrik Þór og hlær þegar hann er spurður - eins og afmælisbörn eru gjarnan - hvernig honum líði á þessum tímamótum. "Það verða því engar sérstakar veislur haldnar, en líklega er kristnihátíðin eitthvað tengd þessu (enn hlátur). En það er svosem gaman að rifja upp fyrstu stuttmyndina mína. Ég gerði hana í Menntaskólanum við Tjörnina, þetta var experimental mynd um þá merku menntastofnun. Fólk vissi ekkert hvernig það átti að taka henni, til dæmis var í henni atriði sem margir muna eftir þar sem fólk var að setja upp stúdentshúfurnar og saman við það klipptar myndir af kóktöppum, svona klippitækni í anda rússnesku meistaranna Eisenstein og Pudovkin. Myndin var fyrst sýnd í marsmánuði árið 1975 á árshátíð skólans og síðan í sjónvarpinu í júní það sama ár og í dagskrárkynningu í Morgunblaðinu var ég kallaður "ungur reiður maður" eða eitthvað svoleiðis skemmtilegt." Tuttugu og fimm árum síðar er Friðrik Þór óumdeilanlega helsti kvikmyndagerðarmaður landsins. Hann er stöðugt á ferðalögum um allan heim með myndir sínar og annarra, í síðustu viku á kvikmyndahátíðinni í Munchen. "Þar var haldin yfirlitssýning á öllum myndunum mínum og einnig á myndum Milos Forman. Ég hef talsvert reynt að fá hann til að koma hingað á Kvikmyndahátíð í Reykjavík og hann langar mikið til að koma." Hvernig maður er hann? "Milos er léttur karl eins og Tékkar eru yfirleitt, frekar auðveldur og þægilegur í umgengni, svona eins og íslenskur bóndi," segir Friðrik Þór og kveðst ekki hafa getað verið annað en mjög ánægður með viðtökur mynda sinna í München. "Ég var spenntastur að vita hvernig Englum alheimsins yrði tekið, því eldri myndirnar eru í sjálfu sér búnar að sanna sig í Þýskalandi. Og ég var ánægður með að heyra að Þjóðverjarnir gátu hlegið þegar það átti við, því þegar myndin var opnunarmynd Gautaborgarhátíðarinnar í vor fannst mér Svíarnir taka henni of alvarlega, kannski af því að þeim eru kenndir svo góðir mannasiðir að þeir hlæja ekki að sjúku fólki. En Þjóðverjarnir hlógu og það þykir mér góðs viti fyrir gengi myndarinnar þegar hún verður tekin til almennra sýninga í kvikmyndahúsum í Þýskalandi næsta vetur."

Í München var jafnframt alþjóðleg kvikmyndahátíð kvikmyndaskóla, þar sem Friðrik Þór sat í dómnefndinni og horfði á um 150 ræmur víðs vegar að í heiminum, sem voru frá nokkrum mínútum upp í hálftíma að lengd. "Það var ekkert erfitt og ég var nokkuð ánægður með það sem ég sá; unga fólkið er að gera fínar myndir," segir hann. "Ég var þó hissa á því hve fáir Íslendingar komu nálægt þeim. Ég sá ekki nema þrjú, fjögur íslensk nöfn í titlum, sem bendir til þess að það séu færri landar í námi erlendis í kvikmyndagerð en verið hefur. Sé raunin sú er það dálítið á skjön við uppsveifluna í bransanum hér heima, ný tækni og meira opinbert fjármagn hefur orðið til þess að aldrei hefur verið eins auðvelt að gera bíómyndir á Íslandi og núna."

Friðrik Þór býr sig nú undir að leikstýra tveimur myndum, Neutron og Fálkum, sem væntanlega verða báðar teknar upp á næsta ári. Að auki er fyrirtæki hans með fjölda annarra mynda á ýmsum vinnslustigum og ekkert bendir til annars en að hann verði jafn önnum kafinn næstu tíu til tuttugu og fimm árin...

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.