Ernie Els frá Suður-Afríku og Daninn Thomas Björn urðu jafnir í öðru sæti á 277 höggum og er þetta mesti munur á fyrsta og öðru sæti á Opna breska meistaramótinu í 93 ár. Tiger Woods lék hringina fjóra af stakri snilld og fyrir mótið var talið að illræmdar sandglompur St.Andrews-vallar myndu bæta höggum við skor Tigers sem og annarra kylfinga. Það er því ótrúleg staðreynd að Tiger sló aldrei í sandglompu á þeim fjórum dögum sem mótið stóð yfir. "Ég sló fjölmörg högg í sandglompunum á hverjum degi á meðan mótinu stóð, en það var heppilegt að það gerðist aðeins á æfingasvæðinu," sagði Tiger Woods.
Afdrifarík mistök hjá Duval
Á lokadegi mótsins var Tiger með sex högga forystu á næstu kylfinga og til þessa hefur það aldrei gerst að Tiger Woods verði á að missa slíkt forskot niður. Bandaríkjamaðurinn David Duval var ræstur síðastur út á lokadegi mótsins ásamt Woods og var Duval í miklum ham á fyrstu níu holunum sem hann lék á 32 höggum, og var því aðeins þremur höggum á eftir Tiger. Á 10. holu fékk Duval góðan möguleika til að minnka forskotið enn frekar en honum mistókst að setja niður tæplega 4 metra pútt fyrir fugli. Woods sýndi mikinn styrk rétt á eftir þegar hann fékk fugl með því að setja niður pútt af svipuðu færi og jók hann þar með forskotið í fjögur högg. Duval lenti síðan í miklum vandræðum á 17. holu sem hann lék á átta höggum, en Duval þurfti fjórar tilraunir til að komast úr sandgryfjunni frægu við flötina. "Ég ætlaði mér að setja pressu á hann í dag og það tókst að vissu marki, síðan gerði ég afdrifarík mistök á 17. holu og Tiger gerði engin slík mistök," sagði David Duval og lofaði harðri keppni um PGA-meistaratitilinn sem fram fer í næsta mánuði.Daninn Thomas Björn lék sérlega vel á mótinu ásamt Ernie Els, en þrátt fyrir það var það Bandaríkjamaðurinn Paul Azinger sem stal senunni á lokadegi mótsins er hann lék á fimm höggum undir pari. Azinger greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum og virtist ferill hans vera á enda en hann virðist vera á batavegi og endaði í sjöunda sæti á mótinu.
Snurðulaus leikur Woods
Leikur Tiger Woods var næstum snurðulaus þar sem hann hitti 66 flatir af 72 og Tiger hitti einnig brautirnar vel því átta af hverjum tíu upphafshöggum hans á mótinu lentu á braut. Tiger fékk 22 fugla, eða einu höggi undir pari, á hringjunum fjórum og notaði rétt rúmlega 31 pútt að meðaltali á 18 holum. Ernie Els frá Suður-Afríku setti einnig met á St. Andrews en S-Afríkumaðurinn endaði í öðru sæti á þriðja stórmóti sínu í röð, og sex sinnum hefur Els verið næstbestur á mótum þar sem Tiger hefur sigrað. "Við eigum í höggi við næstu stórstjörnu golfíþróttarinnar og það þarf mikið til þess að okkur takist að sigra Tiger, í dag er hann einfaldlega í sérflokki, sagði Ernie Els.
Alla dreymir um sigur á St. Andrews
"Allir góðir kylfingar þurfa að vinna á St. Andrews til að fá viðurkenningu á sínum afrekum," sagði Jack Nicklaus og það tók Tiger aðeins fjögur ár sem atvinnumaður að ná þeim áfanga."Þetta er stærsta stundin á ferlinum, St.Andrews er vagga golfíþróttarinnar og hér dreymir alla kylfinga um að vinna. Það er því mjög sérstakt að komast í hóp þeirra sem unnið hafa stórmótin fjögur með sigri hér á Opna breska meistaramótinu," sagði Tiger Woods.
Úrslit/B14
Slær öll met.../B11
Lék á..../B11
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson