Alexander Högnason, fyrirliði Skagamanna, var ekki sáttur að afloknum leik: "Við verðum að nýta sénsana til þess að vinna leiki, það er alveg ljóst.

Alexander Högnason, fyrirliði Skagamanna, var ekki sáttur að afloknum leik: "Við verðum að nýta sénsana til þess að vinna leiki, það er alveg ljóst. Leikurinn var í jafnvægi allan tímann og sigurinn hefði alveg eins getað dottið okkar megin eins og þeirra megin. En við vorum ákveðnir í að sækja hér þrjú stig en við höfum verið svolítið ragir við að skora í undanförnum leikjum og það boðar ekki gott. Hvað dómgæsluna varðar þá er ég hundóánægður, að gefa mér gult spjald fyrir að fá boltann sparkaðan upp í bringuna og út í höndina er alveg fáránlegur dómur. En við verðum bara að þjappa okkur saman og koma vel dýrvitlausir í næsta leik," sagði Alexander.

Ólafur Þórðarson, þjálfari Skagamanna, var ekki gulur og glaður í leikslok: "Við vorum mun betra liðið í dag og áttum fullt af færum sem við nýttum okkur ekki. Í síðari hálfleik þá var meira jafnræði með liðunum en engu að síður þá vorum við mun beittari í okkar leik og áttum nokkur dauðafæri sem við nýttum ekki. Síðan undir lok leiksins þá tekur dómari leiksins mjög afdrifaríka ákvörðun þegar hann sleppir því að reka Hlyn Stefánsson útaf þegar leikmaður ÍA er kominn einn í gegn. Þetta var alveg klárt rautt spjald og ef þessi dómari treystir sér ekki til þess að dæma þá á hann að sleppa því að vera að standa í þessu. Við verðum að skoða leik okkar fyrir framhaldið og klára færin okkar, það er lykilatriði í fótbolta," sagði Ólafur.