ÞAÐ er ljóst að Keflvíkingar eru með KR-inga í spennitreyju þessa dagana - í þremur viðureignum í sumar hafa Keflvíkingar fagnað sigri, unnið tvo leiki í meistarabaráttunni og sendu bikarmeistarana út úr bikarkeppninni.

ÞAÐ er ljóst að Keflvíkingar eru með KR-inga í spennitreyju þessa dagana - í þremur viðureignum í sumar hafa Keflvíkingar fagnað sigri, unnið tvo leiki í meistarabaráttunni og sendu bikarmeistarana út úr bikarkeppninni. Keflvíkingar, sem skelltu KR í Keflavík á sunnudagskvöldið, 1:0, höfðu áður lagt KR-inga að velli á Laugardalsvellinum og í Frostaskjóli. KR-ingar eru eflaust ánægðir að þurfa ekki að glíma við Keflvíkinga oftar í sumar, en Keflvíkingar hefðu eflaust viljað mæta KR-ingum í hverri umferð Íslandsmótsins.

Pétur Pétursson gerði breytingar á liði sínu fyrir viðureignina gegn Keflavík - setti David Winnie út og Bjarni Þorsteinsson tók stöðu hans sem miðvörður við hlið Þormóðs Egilssonar. Sigursteinn Gíslason fór í stöðu Bjarna sem vinstri bakvörður og inni á miðjunni í stöðu Sigursteins var Ívar Bjarklind. KR-ingar náðu sér aldrei á strik á miðjunni, þar sem Keflvíkingar réðu ríkjum með Gunnar Oddsson, Þórarin Kristjánsson og Zoran Ljubecic sem aðalmenn. Þórarinn lék þarna í nýju hlutverki og stóð sig vel.

Ívar og Þórhallur Hinriksson máttu ekki við margnum á miðjunni og náðu þeir aldrei góðri tengingu út á kantana, þar sem þeir Einar Þór Daníelsson og Sigþór Júlíusson náðu ekki að sýna listir sínar. Góðir bakverðir Keflavíkurliðsins, Paul Sheppard og Hjörtur Fjeldsted, höfðu góðar gætur á Einari Þór og Sigþóri. Við það að lama miðju KR-inga og kantspil náðu Keflvíkingar að gera Guðmund Benediktsson og Andra Sigþórsson nær óvirka - Andri náði sér aldrei á strik og munar um minna. Garðar Newman og Mark McNally voru traustir á miðjunni og Gunnleifur Gunnleifsson hafði lítið að gera í markinu fyrir aftan þá.

Leikurinn var í byrjun á rólegu nótunum, en KR-ingar þó mun frískari - án þess þó að skapa hættu. Keflvíkingar komu síðan smátt og smátt inn í leikinn og það var ekki fyrr en á 22. mín. að þeir áttu skot að marki KR - Þórarinn Kristjánsson úr aukaspyrnu.

KR-ingar sluppu síðan með skrekkinn augnabliki síðar, þegar Garðar Newman hamraði knöttinn með skalla eftir hornspyrnu Guðmundar Steinarssonar - knötturinn hafnaði á þverslánni. Skommu síðar náði Kristján Finnbogason, markvörður KR, að blaka knettinum yfir þverslá.

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Keflvíkinga, varði síðan vel skot frá Guðmundi Benediktssyni.

Þróun seinni hálfleiksins var svipuð og í fyrri hálfleiknum. KR-ingar byrjuðu betur, en náðu þó aldrei ógnun við mark heimamanna, sem fengu gullið tækifæri til að skora á 60. mín. Kristján Brooks, sem hafði komið inná fyrir Guðmund Steinarsson, komst einn inn fyrir vörn KR, en Kristján Finnbogason sá við honum.

Keflvíkingar komu síðan knettinum í netið á 77. mín. er Zoran Ljubecic fékk sendingu frá Hirti Fjeldsted. Hann brunaði fram með knöttinn og er hann var kominn rétt inn fyrir vítateig lagði hann knöttinn glæsilega fram hjá Kristjáni Finnbogasyni, sem kom engum vörnum við - knötturinn fór vinstra megin við Kristján og hafnaði út við hliðarnet, 1:0. Glæsilegt mark hjá besta leikmanni vallarins.

KR-ingar reyndu síðan að sækja og jafna metin, en þeir áttu í erfiðleikum að komast í gegnum vörn Keflavíkur. Jóhann Þórhallsson átti gott langskot rétt fyrir leikslok, sem Gunnleifur varði vel.

Eins og fyrr segir náðu KR-ingar sér aldrei á strik í leiknum, leikur þeirra var hugmyndasnauður. Keflvíkingar voru klókir í aðgerðum sínum og munaði mikið um góð tök sem þeir náðu á miðjunni. Þetta er fyrsti leikurinn sem KR nær ekki að skora mark í í sumar, en þess má geta að KR-ingar skoruðu ekki mark í aðeins einum leik í fyrra - er þeir gerðu markalaust jafntefli við Breiðablik á heimavelli.

Sigmundur Ó. Steinarsson skrifar