Í lok júní flutti verktakinn tækin á staðinn og framkvæmdir hófust. Byrjað er á miðri leið við Baulárvallavatn og er þegar búið að móta 4 kílómetra spotta. Nýi vegurinn verður 16 km langur og er framkvæmdin með stærri verkefnum Vegagerðarinnar á þessu ári. Mestöllum efnum þarf að aka í veginn.
Um er að ræða 405.000 rúmmetra af fyllingarefni, neðra burðarlag 85.000 rúmmetrar og efra burðarlag 20.000 rúmmetrar. Verkinu á að vera lokið næsta haust og ætlar verktakinn að gera sem mest á þessu ári. Reiknað er með að hægt verði að tengja nýja veginn við þjóðveginn við Dal á sunnanverðu Snæfellsnesi fyrir áramót. Vegur um Vatnaheiði verður mikil samgöngubót.
Vegarstæðið er mun lægra en núverandi vegur yfir Kerlingarskarð. Vatnaheiðin er breiðasta og lægsta skarðið í Snæfellsnesfjallgarði og á fyrstu árum flugferða hér á landi lá um það aðalflugleiðin til Vestfjarða frá Reykjavík.