ÞEGAR Tiger Woods gekk yfir hina sögufrægu Swilken-steinbrú, sem er á 18. holu gamla St. Andrews golfvallarins, var hann aðeins örfáum skrefum frá því að ljúka við að skrifa nafn sitt á spjöld golfsögunnar. Aðeins tveimur dögum áður hafði Jack Nicklaus gengið í síðasta sinn yfir "Swilken" sem keppandi á Opna breska meistaramótinu og það var því vel við hæfi að á sama augnabliki var Tiger Woods að hefja leik á fyrsta teig.

Jack Nicklaus hefur unnið fleiri sigra á ferlinum en nokkur annar kylfingur og óhætt að segja að Tiger Woods sé til alls líklegur að slá flest þau met, sem í dag eru í eigu "Gullbjarnarins". Aðeins 24 ára að aldri bætist Tiger í hóp þeirra fjögurra atvinnukylfinga sem unnið hafa sigur á öllum stórmótum golfíþróttarinnar, en þau eru: Bandaríska meistaramótið (US Masters), Opna bandaríska meistaramótið (US Open), Opna breska meistaramótið (British Open) og PGA-meistaramótið (PGA Championship). Áður höfðu þeir Gene Sarazen, Ben Hogan, Gary Player og Jack Nicklaus unnið sigur á öllum áðurnefndum stórmótum. Tiger Woods er jafnframt yngsti kylfingurinn sem afrekar þetta og sló hann þar með met Nicklaus frá árinu 1966, en með sigri á Opna breska meistaramótinu hafði Nicklaus tekist að vinna öll stórmótin fjögur aðeins 26 ára gamall. Gary Player var 29 ára er hann sigraði á Opna bandaríska árið 1965, Gene Sarazen vann Masters-mótið 1935, þá 33 ára að aldri, og Ben Hogan var fertugur er hann sigraði á sínu fjórða stórmóti, Opna breska meistaramótinu, árið 1953. Tiger Woods tókst að leika alla hringina fjóra á Opna breska meistaramótinu á minna en sjötíu höggum og var það í annað skipti í sögu mótsins sem það gerist og Tiger er fyrsti kylfingurinn í 18 ár sem tekst að vinna bæði Opna breska meistaramótið og Opna bandaríska meistaramótið á sama árinu, en Tom Watson gerði það síðast árið 1982. Jack Nicklaus er eini kylfingurinn sem hefur sigrað á stórmótunum fjórum oftar en einu sinni, þrisvar sinnum vann Nicklaus mótin fjögur og var tvisvar nálægt fjórða sigrinum en hann varð tvívegis annar á Opna breska meistaramótinu. Þess má geta að sjö kylfingar hafa unnið þrjú af stórmótunum fjórum en það eru: Walter Hagen, Tom Watson, Arnold Palmer, Sam Snead, Lee Trevino, Byron Nelson og Ray Floyd. Tiger Woods sló einnig met Jack Nicklaus á bandaríska meistaramótinu á dögunum þegar hann endaði á 12 höggum betra skori en sá næsti, en gamla metið var í eigu Nicklaus, sem var 9 höggum betra en næsti maður. Tom Morris átti einnig gamalt met á Opna bandaríska meistarmótinu en hann hafði verið 9 höggum betri en næsti maður, en Tiger Woods sló það met svo um munaði fyrir skemmstu og endaði 15 höggum á undan næsta manni. Tiger Woods hefur nú unnið 13 af síðasta 21 móti sem hann hefur tekið þátt í og síðan hann gerðist atvinnumaður í golfi árið 1997 hefur hann alls unnið 21 mót. Nú þegar er Tiger einn af þeim "fimm fræknu" sem skipa hópinn sem unnið hafa sigur á öllum stórmótunum fjórum. Og sagan af Tiger Woods er rétt að hefjast.

Sigurður Elvar Þórólfsson tók saman