Ron Sommer, aðalframkvæmdastjóri Deutsche Telekom.
Ron Sommer, aðalframkvæmdastjóri Deutsche Telekom.
DEUTSCHE Telekom hefur tilkynnt að samningar hafi tekist um kaup fyrirtækisins á bandaríska farsímafyrirtækinu VoiceStream og er kaupverðið 55,7 milljarðar dala eða 4.383 milljarðar íslenskra króna.

DEUTSCHE Telekom hefur tilkynnt að samningar hafi tekist um kaup fyrirtækisins á bandaríska farsímafyrirtækinu VoiceStream og er kaupverðið 55,7 milljarðar dala eða 4.383 milljarðar íslenskra króna. Deutsche Telekom hefur um allnokkurt skeið haft áhuga á að styrkja stöðu sína á Bandaríkjamarkaði og eru kaupin á VoiceStream mikilvægt skref í þá átt. Deutsche Telekom greiðir 30 milljarða dala í reiðufé fyrir allt hlutafé í VoiceStream, 3,3% með eigin hlutafé en afgangurinn eru skuldir VoiceStream sem Deutsche Telekom yfirtekur. Þetta jafngildir því að Deutsche Telekom hafi greitt 194,8 dali fyrir hvert bréf í VoiceStream.

Hluthafar telja verðið of hátt

Verðmæti hins sameinaða fyrirtækis er um 205 milljarðar Bandaríkjadala og það yrði eitt stærsta símafyrirtæki heimsins.

Kaup Deutsche Telekom hafa valdið fjárfestum nokkrum áhyggjum en margir telja að Telekom hafi greitt of mikið fyrir VoiceStream og féll gengi bréfa Telekom um 10% á verðbréfamarkaðinum í Frankfurt þegar tilkynnt hafði verið um kaupin.

VoiceStream er næststærsta farsímafyrirtækið í Bandaríkjunum með um 2,3 milljónir áskrifenda og hefur áskrifendum fjölgað hratt undanfarna mánuði. Ron Sommer, aðalframkvæmdastjóri Telekom, sagði á fréttamannafundi að ekki væri beinlíns hægt að segja að Telekom hafi fengið VoiceStream á lágu verði en staðreyndin væri einfaldlega sú að ekki væri hægt að kaupa hlutafé í farsímafyrirtækjum í Bandaríkjunum á reyfarakjörum. Sommer minnti einnig á að Telekom væri ekki aðeins að afla sér nýrra viðskiptavina heldur væri og verið að festa fé í fyrirtæki með mikla vaxtarmöguleika.

Metupphæð fyrir hvern viðskiptavin

Telekom greiddi algera metupphæð fyrir hvern viðskiptavin með kaupunum á VoiceStream eða 24.217 dali. Til samanburðar má nefna að þegar Vodafone keypti bandaríska símafyrirtækið AirTouch í fyrra greiddi það um 3.000 dali fyrir hvern viðskiptavin og France Telekom greiddi um 6.700 dali þegar það keypti Orange. Ef áætlanir VoiceStream um nýja áskrifendur ganga eftir er raunverðið sem Telekom greiðir fyrir hvern viðskiptavin mun lægra eða 13.295 dalir en í áætlunum er gert ráð fyrir að viðskiptavinir VoiceStream verði orðnir fjórar milljónir talsins í lok ársins.

Talið er víst að bandarísk yfirvöld muni fara í saumana á kaupum Telekom á VoiceStream og vitað er að sumir þingmenn hafa áhyggjur af því að erlent fyrirtæki, sem í þokkabót er að mestu leyti í ríkiseign, hafi keypt bandarískt fjarskiptafyrirtæki. Og í bandarískum reglum segir að ekki megi úthluta farsímaleyfum til fyrirtækja sem erlendar ríkisstjórnir eigi stærri en 25% hlut í og var þessi regla ekki bara sett af samkeppnisástæðum heldur einnig af öryggisástæðum en óvíst er hversu bókstaflega verði farið eftir reglunni. Þýska ríkið á enn 58% hlut í Deutsche Telekom en hlutdeildin lækkar í 45% við kaupin og er stefnt að því að minnka hlut þýska ríkisins enn frekar. Sommer sagðist ekki gera ráð fyrir öðru en að stjórnvöld í Bandaríkjunum muni leggja blessun sína yfir kaupin og sérfræðingar segja að ef Bandaríkjamenn stöðvi kaupin muni það geta haft í för með sér viðskiptastríð á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Stjórn ESB hefur þegar sagt að gripið verði til aðgerða ef Bandaríkjamenn leggja stein í götu Deutsche Telekom.

Bonn. AFP.