Charles Mingus í Kaupmannahöfn árið 1970.
Charles Mingus í Kaupmannahöfn árið 1970.
Vernharður Linnet fjallar í þessari fyrri grein um tónlistarupplifun í London um miðjan mánuðinn á einum helsta djassklúbbi veraldar, Ronnie Scott's - auk upprifjunar á upplifun í sama klúbbi fyrir nær þrjátíu árum.

ÁRIÐ er 1972 og eitt helsta goð djassins væntanlegt til London að leika á einum helsta djassklúbbi Evrópu, Ronnie Scott's. Ég hafði verið einlægur Mingusaraðdándi frá því á unglingsaldri og eytt mörgum kvöldstundum í Eyjum með bassaleikaranum Aðalsteini í Brynjúlfsbúð hlustandi á Mingus og var Atlanticskífan Blues And Roots í sérlegu uppáhaldi. Þar sýndi Mingus og sannaði hversu vel hann var heima í djasssögunni og sameinaði hið nýja hinu gamla vitandi að ekki varð byggt traust hús nema á traustum grunni. Ekki var Mingus Ah Um síðri þar sem Parker, Ellington, Jelly Roll og Lester Young fengu hver sinn ópus og söngurinn um Lester, Good Bye Pork Pie Hat, hefur löngum verið talinn til helstu snilldarverka djassbókmenntanna, en porkpæhatturinn, sem líktist kvenhöttum sautjándu aldar, var einkennismerki Lesters. Booker Ervin blés þarna magnþrunginn tenórsóló þó hann væri í flestu ólíkur Lester - af hinum harða blúsaða Texastenórskóla. Booker kom til Íslands í tvígang, 1966 og 1968, og eru mér minnisstæð orð hans er ég spurði um goðið. ,,Ef hann hefði snert mig hefði ég rotað hann," sagði Erwin 1966, en 1968: ,,Spurðu mig ekki um Mingus, mér er sama þótt hann sé í helvíti." Skapbrestir háðu snillingnum alla ævi eins og ég fékk að upplifa í London.

Tveir aðrir er léku á þessum skífum áttu eftir að heimsækja Ísland: píanistinn Horace Parlan og trommarinn Danny Richmond. Hingað komu líka tveir úr kvintett Mingusar er ég hlustaði á í London sumarið 1972: Trompetleikarinn Jon Faddis og altsaxistinn Charlie McPhearson. Það var rafmagnað andrúmsloft á sviðinu er ég hlustaði á Mingus kvintettinn á Ronnie's annað kvöldið er þeir léku þar. Bassaleikarinn góðkunni, Graham Collier, sagði mér að það væri ekkert skrítið því fyrsta kvöldið hefði Mingus lamið tenóristann Bobby Jones svo hann hrökk fram af sviðinu og tábrotnaði og skammað Charlie McPearson blóðugum skömmum fyrir vonlausa framúrstefnusólóa, formlausa og vitlausa.

Bassaleikarinn sat á miðju sviði eins og Búddalíkneski með bassann í fanginu, en trompetleikarinn ungi Jon Faddis, þá nítján ára, á milli hans og saxófónleikarana eins og virkisveggur. Á píanóið lék John Foster og Roy Brooks á trommur. Tónlistin var tryllt og hámark fyrir geggjarann mig að heyra Fables of Faubus - þennan stríðssöng meistarans. Þegar þetta var voru endurminningar Mingusar, Beneath the Underdogs, nýkomnar út og þáverandi menntamálaráðherra, djassunnandinn og fjölfræðingurinn Magnús Torfi Ólafsson, hafði sagt mér að hann hefði haft mjög gaman af að lesa þær og ég mætti skila kveðju frá sér ef ég hitti Mingus. Af einhverri tilviljun hitti ég hann í hléinu og var meistarinn ekki frýnilegur og þegar ég kynnti mig hvæsti hann. Hann blíðkaðist þó er ég bar honum kveðju Magnúsar og þótti merkilegt að menntamálaráðherra norður í Ballarhafi hefði lesið bókina hans.

Eftir dauða Mingusar í ársbyrjun 1979 hefur tónlist hans verið sýndur mikill sómi og fyrir utan að hljóðritanir hans séu sífellt endurútgefnar og tónverk hans á efnisskrá þúsunda djasssveita (m.a. voru heilir tónleikar helgaðir tónlist Mingusar á tónleikum Sigurðar Flosasonar og Jóels Pálssonar á Jazzhátíð Reykjavíkur í fyrra) hefur ekkja hans, Sue Mingus, verið óþreytandi að reka hljómsveitir er leika verk hans: Mingus Dynasty, þar sem gamlir félagar settu svip á tónlistina, The Epitaph Orchestra og The Mingus Big Band, sem var kjörin besta stórsveit djassins af lesendum Down beat 1997 og tvö síðustu ár af gagnrýnendum sama rits. Þá hljómsveit heyrði ég á tónleikum í Sirkusbyggingunni á djasshátíðinni í Kaupmannahöfn 1998 og svo aftur í Ronnie Scott's djassklúbbnum um miðbik þessa mánaðar. Það er ólýsanleg reynsla að hlusta á stórsveit í klúbbi og Mingusarsveitin stóð undir væntingum - en vel að merkja er hún að sjálfsögðu draugasveit og væri fáviska að bera hana saman við þær sveitir sem Mingus stjórnaði um hérvistardaga sína, frekar en sveitir þær er nú starfa undir nöfnum Count Basie, Duke Ellingtons, Woody Hermans eða Tommy Dorseys, svo helstu draugasveitir nútímans séu nefndar. Þegar meistararnir eru horfnir ríkir andi þeirra ekki lengur óskiptur þó hann svífi yfir vötnunum. Ætli Bach, Mozart og Beethoven hefðu ekki flutt verk sín með öðruvísi andagift en við heyrum hjá stjórnendum nútímans? En Mingus stórsveitin leikur ekki bara verk Mingusar frekar en hann sjálfur gerði. Þekktir söngdansar eins og Speak Low og Everytime We Say Goodbye voru á dagskrá innan um Mingusverkin. Frægast þeirra var hinn ódauðlegi ópus sem hér var minnst á að framan: Good Bye Pork Pie Hat. Seamus Blake blés tenórsólóinn af mikilli fagmennsku í coltraneískum Brecker stíl, en hita Booker Erwins vantaði. Alex Foster blés í altó og stjórnaði bandinu og voru einleikararnir hver öðrum betri - þó vantaði þungavigtarmenn eins og voru í bandinu 1998, Bobby Wathson á altósaxófón og Kenny Drew jr. á píanó. Frank Lacy hefur oft blásið í básúnu með bandinu og sungið en í hans stað var komin ungur tvífari: Akim Jamal Haynes, sem blés af miklum krafti í anda Lacys. Svo voru tvö minningarverk flutt: O.P. um Oscar Pettiford bassasnilling og So Long Eric (Dolphy) um saxistann, flautuleikarann og bassaklarinettumeistarann sem oft blés með Mingus. Á tónleikunum í Kaupmannahöfn 1998 var flutningur bandsins á svítu Mingusar, The Saint And the Sinner Lady, hápunktur tónleikanna - á Ronnie´s; Cumbia & Jazz fusion. Þó það verk jafnist ekki á við Dýrðlinginn og þá bersyndugu býr það yfir hinum mikla rýþmíska spennukrafti sem einkennir bestu verk Mingusar. Akim Jamal fór með sönghlutverk Mingusar dyggilega studdur af nokkrum félaga sinna og gerði það eftirminnilega. Það er alltaf upplifun að heyra Mingus stórsveitina og stundum má heyra hana á fleiri en einum stað í einu, því kannski stjórnar Alex Foster einni og Steve Slage annarri og Frank Lacy þeirri þriðju. Nóg er af músíköntunum til að leika Mingus.