BÆNDUR í ferðaþjónustu segja aðstöðumun ferðaþjónustubænda gagnvart rekstri sumarhótela óeðlilega mikinn og að sumarhótelin nánast fleyti rjómann ofan af í þjónustugrein sem rekin er með tapi stóran hluta ársins utan sumartímans.

BÆNDUR í ferðaþjónustu segja aðstöðumun ferðaþjónustubænda gagnvart rekstri sumarhótela óeðlilega mikinn og að sumarhótelin nánast fleyti rjómann ofan af í þjónustugrein sem rekin er með tapi stóran hluta ársins utan sumartímans. Ágúst Sigurðsson, formaður Félags ferðaþjónustubænda, segir að gjöld og álögur sem sumarhótel þurfi að greiða séu í engu samræmi við rekstrarumfang og nýtingu þeirra bygginga sem þar er um að ræða. Í maí sl. birti Samkeppnisráð úrskurð vegna kvörtunar Hótels Borgarness varðandi rekstur sumarhótels Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, en forsvarsmenn Hótels Borgarness töldu að sumarhótelið á Hvanneyri gæti í krafti opinberrar verndar og fjármagns boðið verð á gistingu, sem öðrum aðilum í hótelrekstri væri ekki kleift að gera. Samkeppnisráð taldi í niðurstöðu sinni að nauðsynlegt væri að sumarhótel Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, sem rekið væri í samkeppni við aðra aðila, væri fjárhagslega aðskilið frá reksti skólans og að hótelið ætti að reka sem sérstaka efnahagslega einingu. Ágúst segir að bændur horfi auðvitað til þessa máls, en hann segist ætla að bíða og sjá útfærsluna áður en hugað verður að hugsanlegum kærum gagnvart rekstri fleiri sumarhótela á landsbyggðinni.

Rekstraraðilar sumarhótela borgi sinn skerf

"Við erum auðvitað að reyna að halda uppi heilsársþjónustu, langflestir, og við erum að keppa við sumarhótel sem í mörgum tilfellum eru rekin af aðilum sem eru búsettir í Reykjavík. Þá er ég ekki bara að tala um Edduhótelin. Og flestir þessara aðila skilja mjög lítið eftir í samfélögunum úti á landi. Þau eru í rekstri á meðan háannatíminn er, og það má einfaldlega bara orða það þannig, að þessir aðilar séu að fleyta rjómann ofan af," segir Ágúst.

"Ég þori ekki að fullyrða um það, að þeir borgi engin fasteignagjöld gegnumsneitt, en ég veit að í allmörgum tilfellum gera þeir það ekki og í einhverjum tilfellum eru þeir að sýna einhvern lit. En það er ekki í neinu samræmi við rekstrarumfang og nýtingu þeirra bygginga sem þar er um að ræða." Að sögn Ágústs vilja ferðaþjónustubændur að þessi aðstöðumunur verði jafnaður, og telur hann að það sé einfaldast að gera með þeim hætti að rekstraraðilar sumarhótelanna borgi sinn skerf til viðkomandi sveitarfélaga. Ferðaþjónustubændur hafa rætt þessi mál við ráðamenn, en engin niðurstaða hefur fengist í þær viðræður. Ágúst segir þó að núverandi landbúnaðarráðherra hafi sýnt þessari grein landbúnaðar meiri skilning heldur en margir aðrir.

Hann segir það ekkert undarlegt að ferðaþjónustubændur séu ósáttir við þetta. Oft séu það einstaklingar með búsetu á landsbyggðinni sem eru að halda uppi heilsársþjónustu og því eðli málsins samkvæmt að borga með henni lungann úr árinu. "Og ég bendi á það líka í þessu sambandi, að samgönguráðuneytið hefur nú gefið út stefnumótun varðandi þessi mál, og þar kemur fram að hótelrekstur á landsbyggðinni sé rekinn með tapi og það sé fyrirsjáanlegt að svo verði áfram," segir Ágúst.