ÓÐINN, varðskip Landhelgisgæslunnar, hafði afskipti af þremur handfærabátum sem voru að veiðum norður af Hornbjargi í fyrrakvöld. Bátarnir, sem skráðir eru í svokallað sóknardagakerfi, eru grunaðir um að hafa ekki tilkynnt sig í símakrók Fiskistofu.

ÓÐINN, varðskip Landhelgisgæslunnar, hafði afskipti af þremur handfærabátum sem voru að veiðum norður af Hornbjargi í fyrrakvöld. Bátarnir, sem skráðir eru í svokallað sóknardagakerfi, eru grunaðir um að hafa ekki tilkynnt sig í símakrók Fiskistofu. Bátarnir munu ekki hafa haft mikinn afla innanborðs. Þeim var vísað til hafnar á Ísafirði þar sem skipstjórar þeirra verða yfirheyrðir og verður málið þaðan sent sýslumanninum á Ísafirði til meðferðar.

Símakrókur er sjálfvirkt símakerfi sem notað er til að tilkynna um sóknardaga og veiðarfæri hjá krókabátum. Bátum í sóknardagakerfi er skylt að tilkynna í símakrók þegar látið er úr höfn í upphafi veiðiferðar og eins þegar komið er til hafnar frá veiðum. Einn sóknardagur telur 24 klukkustundir frá því að látið er úr höfn.

Sigurjón Aðalsteinsson, forstöðumaður landeftirlits Fiskistofu, segir Fiskistofu hafa fengið vísbendingar um að menn hafi misnotað tilkynningaskyldukerfið og dregið að hringja í símakrók eftir að veiðiferð hefst. Þannig hafi áður komið upp mál þar sem tilkynningaskylda í símakrók hafi ekki verið uppfyllt. Hann segir erfitt að halda uppi eftirliti með því hvernig sóknardagabátar hlíti reglum um tilkynningar, þar sem nú þurfi hvorki að tilgreina frá hvaða höfn bátarnir hefja veiðiferð, né í hvaða höfn þeir komi að veiðiferð lokinni. Sú breyting verði hins vegar á frá og með næstu fiskveiðiáramótum að sóknardagabátar þurfa að tilkynna úr hvaða höfn þeir þeir láta og í hvaða höfn þeir koma.

Viðurlög við vanrækslu við tilkynningar í símakrók er veiðileyfissvipting í allt að 2 vikur við fyrsta brot. Sé málið kært þá varðar fyrsta brot fjársektum að minnsta kosti 400 þúsund krónum.