Chris Calver, Winfried Lindl, Theresa Lindl, Steve Levensen, Helena Dejak, Michele Ostini, Francesca Fumagalli, John Hay og Jean Balfour í ferðalok. Íslendingurinn í hópnum, Ágúst Guðmundsson, var horfinn á braut.
Chris Calver, Winfried Lindl, Theresa Lindl, Steve Levensen, Helena Dejak, Michele Ostini, Francesca Fumagalli, John Hay og Jean Balfour í ferðalok. Íslendingurinn í hópnum, Ágúst Guðmundsson, var horfinn á braut.
ÞAÐ er ýmislegt sem fólk tekur sér fyrir hendur í frístundum. Eitt af því óvenjulegra er tvímælalaust að ferðast hringinn í kringum Grænland. Um helgina lenti hópur fólks á Reykjavíkurflugvelli sem var einmitt að koma úr slíkri ferð.

ÞAÐ er ýmislegt sem fólk tekur sér fyrir hendur í frístundum. Eitt af því óvenjulegra er tvímælalaust að ferðast hringinn í kringum Grænland. Um helgina lenti hópur fólks á Reykjavíkurflugvelli sem var einmitt að koma úr slíkri ferð. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem flogið er hringinn í kringum Grænland í einni ferð. Það var Helena Dejak, sem rekur ferðaskrifstofuna Nonna, sem var fararstjóri hópsins en hún fékk þessa hugmynd fyrir tveimur árum.

"Þegar ég fékk hugmyndina þá settist ég niður með manninum mínum, sem er flugmaður, og hann fór að skoða málið. Hvernig væri með aðstöðu til að lenda því að það eru alls ekki flugvellir alls staðar þar sem við lentum. Við gistum svo bæði á hótelum og í tjöldum."

Flogið var með Twin Otter vél sem Flugfélag Íslands lagði til, en þessar vélar eru líklega þær einu sem hægt er að nota í slíkar ferðir. Sigurður Aðalsteinsson, annar flugmannanna, og eiginmaður Helenu, segir flugskilyrðin hafa verið ágæt mestan hluta ferðarinnar. "Við vorum líka tiltölulega heppin með veður, flugum í sjónflugi allan tímann. En alls vorum við 33 tíma á lofti og hringurinn er um 7.500 kílómetrar. Við lentum á átján stöðum og stoppuðum einn til tvo daga á hverjum stað. Alls vorum við 21 dag á ferðalagi." Sigurður og Ragnar Magnússon flugstjóri skiptust á að fljúga.

Flogið var frá Kúlusúkk og þaðan suður fyrir Grænland, norður vesturströndina, norður fyrir landið og suður austurströndina aftur til Kúlúsúkk. Níu farþegar slógu til og tóku þátt í þessari óvenjulegu ferð og var hópurinn mjög alþjóðlegur, sumir höfðu komið til Grænlands áður og aðrir voru þar í fyrsta skipti.

Þetta var einstakt tækifæri

Hjónin Winfried og Theresa Lindl frá Linz í Austurríki höfðu ekki komið til Grænlands áður en hafa ferðast mikið á norðlægum slóðum. "Þetta var einstök ferð vegna þess að venjulega getur maður ekki séð allar Grænlandsstrendur í einni ferð. Það er náttúrlega ekki hægt að aka þessa leið þannig að þetta var alveg einstakt tækifæri. Þetta var alveg stórkostlegt og svo margt að sjá. Það var líka gaman að vera með í fyrsta skipti sem farið er í svona ferð."

Francesca Fumagalli og Michele Ostini frá Lugano í Sviss voru líka mjög heilluð af ferðinni. "Við sáum ferðina auglýsta á Netinu og ákváðum að þetta væri eitthvað fyrir okkur. Við höfum haft áhuga á að ferðast á þessum slóðum lengi. Það kom okkur í raun á óvart hversu stórbrotið land þetta er; það var ótrúlegra en við héldum. Fólkið var líka mjög vinsamlegt og við reyndum eins og hægt var að spjalla við þá sem við hittum."

Michele hefur lengi haft hug á að fara til Grænlands. "Ég stunda kajaksiglingar og hef alltaf haft áhuga á að fara á þær slóðir þar sem kajak er notaður til veiða," sagði Michele. "Mér fannst líka mjög áhugavert að fara til Grænlands og sjá hvernig þeir hafa búið með þessum erlendu menningaráhrifum sem þeir hafa orðið fyrir, herstöðvum Bandaríkjanna og danskri stjórn," bætir Francesca við.

En skyldu þau Helena og Sigurður geta hugsað sér að fara aftur í svona ferð? "Ekki strax," segir Helena en Sigurður er fljótur að mæla í mót: "Því ekki það, ef það er áhugi fyrir þessu."