FJÁRMÁLAEFTIRLITIÐ hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að grípa til aðgerða vegna nýlegrar hækkunar tryggingafélaganna á ökutækjatryggingum.

FJÁRMÁLAEFTIRLITIÐ hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að grípa til aðgerða vegna nýlegrar hækkunar tryggingafélaganna á ökutækjatryggingum. Er það mat Fjármálaeftirlitsins að jafnvel þó að fjárhagsstaða stóru tryggingafélaganna sé sterk og fé hafi losnað úr tjónaskuld fyrri ára þá hafi þau sýnt fram á aukinn tjónakostnað og óstöðugleika í greininni.

Fram kemur í yfirlýsingu, sem Fjármálaeftirlitið sendi frá sér í gær, að það sé mat þess að tryggingafélögin hafi almennt bætt rökstuðning sinn fyrir iðgjaldahækkunum gagnvart viðskiptamönnum sínum. Með því hafi tryggingafélögin orðið við tilmælum sem þau fengu í fyrra þegar Fjármálaeftirlitið gerði sambærilega könnun á iðgjaldahækkunum en nauðsynlegt sé að þau haldi áfram á sömu braut.

Tryggingafélögin tilkynntu of seint um hækkanir

Fjármálaeftirlitið hyggst fylgjast náið með þróun greinarinnar á næstu mánuðum og telur stofnunin brýnt að tryggingafélögin taki forsendur iðgjaldaákvarðana til endurskoðunar um leið og reynsla sé fengin. Kemur einnig fram í yfirlýsingu eftirlitsins að það vinni nú að athugun á framkvæmd bónusreglna og mögulegri endurskoðun vátryggingaskilmála lögboðinna ökutækjatrygginga varðandi gildistöku og endurnýjun.

Vakin er athygli á því að þeir viðskiptavinir sem eru með gjalddaga í ökutækjatryggingum hinn 1. ágúst næstkomandi geti sagt upp vátryggingarsamningum sínum fram að endurnýjun vegna þess hversu seint félögin tilkynntu hækkanirnar. Gerir Fjármálaeftirlitið athugasemd við að tiltekin tryggingafélög létu þessa ekki getið í tilkynningu um hækkun iðgjalda til viðskiptavina sinna.