Murneyrarmótið var sannast sagna skrýtið svo ekki sé meira sagt. Á laugardeginum rigndi allan daginn látlaust og fram á kvöld meðan dagskrá lifði en þrátt fyrir hálfdaprar aðstæður var ákveðið að keyra dagskrána áfram af æðruleysi og láta bleytuna ekki fara í taugarnar á sér. Átti þetta við um bæði starfsmenn mótsins og knapa og gekk vonum framar að keyra dagskrána áfram.
A-flokkurinn á beinu brautinni
Forkeppni í A-flokki var flutt yfir á beinu brautina þar sem kappreiðar fara alla jafna fram þar sem beygjur hringvallarins þóttu orðnar býsna sleipar og blautar. Allt hafðist þetta og undir lok dagskrár um kvöldið var farið að stytta upp.Ekki var útlitið gott fyrir sunnudaginn samkvæmt veðurspá en sem betur fer bregðast spárnar stundum og hægt að segja að algjör umskipti hafi orðið á veðri. Þá kom vel í ljós styrkur svæðisins á Murneyri því á ótrúlega skömmum tíma voru grasvellirnir komnir í viðunandi horf. Jarðvegurinn þarna tekur ótrúlega vel við miklu magni vatns enda um uppgrónar malargrundir að ræða. Hringvöllurinn var ótrúlega góður eftir hádegið þegar úrslit fóru fram.
Við þessar aðstæður lifnaði heldur betur yfir mörgum fákanna enda hækkuðu margir þeirra verulega í einkunnum í úrslitum. Fóru sum þeirra í mjög háar tölur eins og til dæmis Ás frá Háholti sem Sigurður Óli Kristinsson sýndi, þeir hlutu 8,86. Þá voru Einar Öder Magnússon og Glóð frá Grjóteyri í miklu stuði í úrslitum B-flokks Sleipnis er þau unnu sig úr þriðja sæti í í fyrsta sætið og hlutu 8,75 en Galsi frá Stokkseyri og hin norska Christine Lund sem höfðu vermt fyrsta sætið eftir forkeppni hlutu 8,70. Sannarlega spennandi keppni tveggja frábærra hrossa þar sem að ósekju hefðu mátt sjást fleiri níur á lofti, sérstaklega hjá Galsa fyrir bæði brokk og yfirferðartölt. Kvöldið áður höfðu Einar og Glóð unnið góðan sigur í töltkeppni sem kennd er við Sláturfélag Suðurlands svo undarlega sem það kann að hljóma.
Kvennaveldi hjá Smára
Í úrslitum B-flokks Smára gerðust þau tíðindi að á fjórum af fimm hrossum voru konur knapar en þar á meðal var einnig áðurnefndur Einar á Strípu frá Húsatóftum sem vann sig upp úr fjórða sæti í annað sæti. Þar sigraði hinsvegar af öryggi Gláka frá Herríðarhóli þar sem knapinn var Birna Káradóttir en hún er ekki alveg ókunn í þessu sæti, nánast komin með áskrift á fyrsta sæti í B-flokki hjá Smára. Sýndi hún Gláku af miklu öryggi en þær hækkuðu sig úr 8,12 í 8,50 í úrslitunum.
Ljúfur góður
Í unglingaflokki Sleipnis vakti einn hestur öðrum fremur athygli, Ljúfur frá Sandhólaferju sem Daníel Ingi Larsen sýndi af stakri prýði. Þarna er á ferðinni 6 vetra hestur undan Pilti frá Sperðli og hefur stráksi verið að dunda sér við hann í vetur með góðum árangri. Hjá Smára í þessum flokki sigraði Ragnhildur Másdóttir en hún var einnig á athygli verðu hrossi sem heitir Ylur frá Háholti en sá er aðeins 5 vetra undan Sörla frá Búlandi og gæti látið að sér kveða þegar frá líður.Ekki blómstraði tjaldbúðalífið á Murneyri að þessu sinni af skiljanlegum ástæðum en þó nokkrir komu ríðandi að venju og á sunnudag var aðsókn að mótinu prýðileg. Veruleg afföll urðu í þátttöku, líklegast vegna veðurs. Í opinni töltkeppni voru til dæmis skráðir 50 keppendur en aðeins 24 mættu. En Murneyrarmótin standa styrkum fótum þrátt fyrir blautan laugardag. Ýmis fyrirtæki á Suðurlandi standa vel við bakið á þessari samkomu og veita veglegum fjárupphæðum til verðlauna í bæði kappreiðum og eins í töltkeppnina.