Atonal future, (f.v.) Snorri Heimisson, Gunnar A. Kristinsson, Berglind M. Tómasdóttir, Ingólfur Vilhjálmsson, Hlynur A. Vilmarsson (með borvélina), Áki Ásgeirsson og Kristín M. Gunnarsdóttir.
Atonal future, (f.v.) Snorri Heimisson, Gunnar A. Kristinsson, Berglind M. Tómasdóttir, Ingólfur Vilhjálmsson, Hlynur A. Vilmarsson (með borvélina), Áki Ásgeirsson og Kristín M. Gunnarsdóttir.
Atonal Future er hópur ungra hljóðfæraleikara og tónskálda sem er á leiðinni í tónleikaferð um landið og út fyrir það. Birgir Örn Steinarsson hitti þau Berglindi M. Tómasdóttur og Snorra Heimisson og fékk m.a. skýringu á þessu stórfurðulega nafni.

Á YFIRBORÐINU virðist það vera venja hjá þeim sem fara á sígilda tónleika að setja sig í stellingar, klæða sig upp í sitt fínasta púss, klóra sér snyrtilega á hökunni og kinka virðulega kolli til þaullærðra tónlistarmanna. Ef til vill er það nafngiftin á tónlistarstefnunni sem gefur henni þennan tilgerðarlega stimpil. Orð eins og "klassík" eða "hámenning" eiga eflaust sinn þátt í að fæla smeyka tónlistaráhugamenn frá uppákomunum. En sannleikurinn gæti ef til vill verið sá að það erum við meðalmennin sem lokum eyrum okkar og sjáum flísina í augum annarra en ekki pálmatrén í okkar eigin augum.

Öll tónlist á það sameiginlegt að það er nauðsynlegt ef hún á að heyrast að hver og einn byrji á því að kippa fordómabanananum út úr eyrunum á sér. Þegar hlustandinn og tónlistin mætast í einrúmi, t.d. þegar lokað hefur verið á umheiminn með heyrnartólum, skiptir ekki öllu máli hversu snyrtilega er plokkað í hljóðfærastrengina heldur sálarstrengina.

Tónlistarhópurinn Atonal Future er skipaður sjö ungum íslenskum hljóðfæraleikurum og tónskáldum sem allir stunda framhaldsnám í tónlist víðs vegar um Evrópu. Hann hefur starfað frá árinu 1998 og frá upphafi sérhæft sig í flutningi nýrrar íslenskrar tónlistar. Hópurinn hefur haldið árlega tónleika í Iðnó fyrir troðfullu húsi. Tónleikagestir virðast vera úr öllum áttum og því hugsanlegt að hér sé fundinn áður týndur hlekkur milli stefna. En hver skyldi vera ástæðan fyrir því að tónlist hópsins nær til svona breiðs hlustunarhóps? Er það blanda margra ólíkra tónlistarstefna?

"Nei," svarar Snorri Heimisson fagottleikari. "Þetta er nútímaband og við spilum nútímamúsík eða svokallaða atónal músík."

"Hún er þó ekki alveg atónal," bætir Berglind M. Tómasdóttir flautuleikari við. "Atónal tónlist er sú tegund sem ekki er tóntegundabundin. Hún notast ekki við dúr- og moll-kerfið. Flest popplög eru tónal en þessi tónlist er það ekki. Það er samt nauðsynlegt að benda á að við erum ekki alveg klassísk og ekki eru þetta popptónleikar en samt einhvers staðar þar á milli. Nafnið er svolítið villandi. Við erum ekkert að gefa okkur út fyrir að vera svakalega atónal. Nafnið var upphaflega brandari og við erum eiginlega að vandræðast með þetta nafn. Fólk fattar ekki endilega húmorinn við nafnið. Það er ekki það að við séum einungis atónal, því margt af þessu er einmitt mjög tónrænt."

Það getur verið afar misjafnt hvað fellur fólki í geð. Stundum þegar eitthvað endurkastast af smekk gallharðra einstaklinga hefur blaðamaður verið löðrungaður með þeirri óþægilegu staðhæfingu: "Þetta er ekki tónlist!" Það er eflaust hægt að brjóta heilann endalaust um þetta en hvað getur þetta annað verið? Því jafnvel þótt tónarnir væru það falskir að þér skæru í eyrun væru þeir enn tónar.

Gamanskotnar tónsmíðar á ferðalagi

Í ár ætlar hópurinn sér ögn stórtækara verkefni en áður. Í stað þess að halda einungis sína árlegu tónleika í Iðnó heldur hópurinn einnig í tónleikaferð. Fyrstu tónleikarnir verða í Deiglunni á Akureyri 29. júlí. Því næst halda þau til Ísafjarðar en snúa svo aftur til Reykjavíkur.

"Húsið á hinum tónleikunum var alveg pakkað," segir Snorri og á þar við þá tónleika sem hópurinn hefur haldið til þessa.

"Þannig að í ár ætlum við að vera með tvenna tónleika," bætir Berglind við. "Við vonum bara að við séum ennþá jafn vinsæl."

Tónleikar hópsins í höfuðborginni verða dagana 1. og 2. ágúst í Iðnó. Eftir þá verður haldið út fyrir landsteinana, því hópurinn spilar á Grænlandi 4. ágúst og í Færeyjum þremur dögum seinna.

Á dagskránni eru verk eftir tónskáld hópsins, en þau eru: Áki Ásgeirsson, Gunnar A. Kristinsson og Hlynur Aðils Vilmarsson. Þeir spila líka allir með hópnum á tónleikunum. Einnig verða flutt verk eftir Arnar Bjarnason, Davíð Franzson og Kolbein Einarsson, sem eru allir við tónsmíðanám víðsvegar um heiminn. Öll verkin eru sérstaklega samin fyrir hópinn og verða frumflutt á tónleikaferðalaginu.

"Það hafa margir höfundanna komið við annars staðar í tónlistinni," segir Berglind. "Til dæmis Kolbeinn Einarsson, sem er nú í tónsmíðanámi en á að baki popparaferil. Verk Hlyns sýnir líka glögglega að hann hlustar ekki eingöngu á klassíska tónlist."

Áhugasömum er vert að benda á að Hlynur var höfuð, herðar, hné og tær í dauðarokkssveitinni Strigaskór nr. 42, sem vakti á sínum tíma mikla athygli fyrir framúrstefnulegar lagasmíðar.

"Tónleikar okkar hafa verið og verða líklega alltaf svolítið léttari en hefðbundnir klassískir tónleikar eru oftast. Sum verkin eru gamanskotin, það er mikið sprell í þeim," segir Berglind.

Öll verkin eiga það líka sameiginlegt að vera innan við sjö mínútur að lengd. Berglind segir ástæðuna jafnvel þá að skáldin hafi ekki haft tíma til þess að semja lengri verk en Snorri er henni ekki sammála.

"Ég myndi nú ekki segja að þeir hefðu ekki haft tíma," segir hann spekingslega.

"Það er meira gaman að hlusta á stutt verk, þ.e.a.s. þegar menn eru ekki að gera langlokur bara til þess að gera langlokur. Gera frekar stutt og góð verk."

"Já, þetta er kannski eins og með rithöfundana," bætir Berglind við. "Þeir eru margir í smásagnaforminu til að byrja með þannig að það gæti verið að skáldin væru að skoða formið og ná tökum á því."

Að lokum spyr blaðamaður hvaða hljóðfæri hópurinn notist við.

"Borvél," svarar Berglind snöggt. "Slökkvitæki," svarar Snorri nær ofan í hana. Logsuðutæki, blöð úr vélsög, plötuspilarar og segulband eru einnig talin upp.

"Samsetningin á hópnum er ekki mjög týpísk," viðurkennir Snorri. "Grunnhljóðfærin eru fagott, flauta og tvö klarínett."

"Svo er trompet með, slagverk og píanó," segir Berglind. "Þetta þykir mjög sérstök samsetning í klassískri tónlist."

"Það er líka smáelektróník, því það eru líka rafverk á dagskránni," bætir Snorri að lokum við sérstaklega kurteislega.

Þeim sem hafa áhuga á að fá smásýnishorn af tónlist hópsins má benda á Taltónleika Hins hússins næsta fimmtudag þar sem hópurinn hitar upp fyrir Botnleðju.