Leikstjóri: Krishna Rao. Handrit: Krishna Rao og Ramain Rao. Aðalhlutverk: Rutger Hauer, Josh Charles. (90 mín.) Bandaríkin 1998. Háskólabíó. Bönnuð innan 16 ára.

ÞEGAR Hollendingurinn Rutger Hauer skellti sér í ferðalag vestur um haf var hann í slagtogi með landa sínum kvikmyndagerðarmanninum Paul Verhoven. Þeir höfðu unnið saman að nokkrum myndum í heimalandinu við góðan orðstír og vildi Hollywood vitanlega vænan bita af feitum sauð - með öðrum orðum gera sér mat úr töfrum þeirra. Fyrst um sinn héldu þeir samvinnunni áfram í Flesh and Blood en síðan skildi leiðir. Verhoven styrkti stöðu sína með hverri byltingarkenndu hasarmyndinni á fætur annarri. Hauer stefndi hins vegar hraðbyri í öfuga átt - niður á við - og er svo komið nú að hann birtist vart annars staðar en í lítt merkilegum myndum sem gerðar eru fyrir sjónvarp eða myndband.

Krossgötur er ein þessara mynda. Dæmalaust vitlaust vísinda/framtíðarþvaður um líf í öðrum víddum, veldissprota og vonda karla sem reyna að hrifsa til sín valdið yfir víddaferðalögum, eða eitthvað á þá leið. Það er hreint óskiljanlegt að aðstandendur skuli ekki hafa haft ofbeldið í myndinni aðeins minna til að koma í veg fyrir aldurstakmörk því í raun er saga þessi lítið annað en barnaævintýri og myndi eflaust skemmta yngri áhorfendum hefðu þeir leyfi til að sjá hana.

Skarphéðinn Guðmundsson