ÞAÐ getur verið fróðlegt að bera saman íbúðaverð í hinum ýmsu sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

ÞAÐ getur verið fróðlegt að bera saman íbúðaverð í hinum ýmsu sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Bæði er að verðhækkanir hafa verið talsvert miklar á undanförnum misserum og eins hitt, að ekki er víst, að þróunin sé nákvæmlega sú sama í sveitarfélögunum öllum.

Á súluritinu hér til hliðar er sýnt meðalverð á fermetra í íbúðum, uppfært til staðgreiðslu, sem skiptu um eigendur á tímabilinu marz-apríl á þessu ári. Samkvæmt því er fermetraverð dýrast á tveggja herb. íbúðum í Kópavogi, þar sem það var 115.392 kr., í Reykjavík var það 112.205 kr. og í Hafnarfirði 110.629 kr.

Í þriggja herb. íbúðum var fermetraverðið hæst í Reykjavík eða 103.591 kr., aðeins lægra í Kópavogi eða 103.190 kr. og í Hafnarfirði 99.347 kr.

Fermetraverðið fer lækkandi eftir því sem íbúðirnar eru stærri og er skýringin sú, að ýmsir dýrir þættir eins og eldhús og bað eru sameiginlegir með öllum íbúðum og vega hlutfallslega þyngra í verði, eftir því sem íbúðirnar eru minni.

Að sögn fasteignasala er höfuðborgarsvæðið í heild að verða mjög svipað með tilliti til verðs, þó svo að ákveðin hverfi haldi alltaf sérstöðu sinni, að því er varðar eftirspurn og verð.

Þar má nefna Þingholtin og Seltjarnarnes, enda þótt Nesið sé ekki haft með á súluritinu, þar sem upplýsingar um það voru ekki fyrir hendi, en Seltjarnarnes hefur löngum verið hvað dýrast á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Ásókn í íbúðarhúsnæði í Mosfellsbæ er mjög mikil og verð hefur hækkað þar og nálgast verð í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Fjarlægðirnar eru að minnka og borgin og Mosfellsbær stöðugt að nálgast hvort annað.

Enn má nefna Áslandið í Hafnarfirði, en ásókn í eignir þar hefur verið mjög mikil og að sögn fasteignasala er verð þar að nálgast verð á fasteignum í Lindahverfi í Kópavogi.