Stelpurnar frá BÍ á Ísafirði voru margar hverjar ekki búnar að æfa fótbolta lengi þegar þær komu á Gull- og silfurmótið. Sumar höfðu aðeins æft í nokkra mánuði. Það kom þó ekki í veg fyrir  að þær skemmtu sér konunglega, enda vita þær ekkert skemmtilegra
Stelpurnar frá BÍ á Ísafirði voru margar hverjar ekki búnar að æfa fótbolta lengi þegar þær komu á Gull- og silfurmótið. Sumar höfðu aðeins æft í nokkra mánuði. Það kom þó ekki í veg fyrir að þær skemmtu sér konunglega, enda vita þær ekkert skemmtilegra
SAUTJÁNDA Gull- og silfurmót Breiðabliks í knattspyrnu stúlkna var haldið í Kópavogsdal um helgina. Mótið var sett við hátíðlega athöfn á fimmtudag en á föstudagsmorgun hófst keppni í öllum flokkum. Keppni lauk um miðjan dag á sunnudag, þá voru afhent verðlaun og haldin grillveisla fyrir alla þátttakendur, sem voru áttahundruð talsins. Breiðablik vann til flestra verðlauna á mótinu en fast á hæla heimamanna komu stelpurnar frá Vestmannaeyjum.

Sverrir D. Hauksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, var ánægður með mótshaldið að þessu sinni, en sagði þó að vissulega hefði veðrið mátt vera betra.

"Við lögðum allt kapp á að gera mótið sem best úr garði, sérstaklega vegna þess að Breiðablik fagnar 50 ára afmæli sínu á þessu ári. Við nutum stuðnings frá Kópavogsbæ til að bjóða hingað tveimur erlendum félögum frá vinabæjum Kópavogs í Noregi og Svíþjóð, en það voru liðin Kimstad frá Þrándheimi og Sverresborg frá Norrköping.

Mótið í ár er talsvert stærra heldur en það var í fyrra, en hingað komu rúmlega 800 þátttakendur og þeim fylgir alltaf talsverður hópur foreldra og forráðamanna. Við höfum ekki heyrt annað en að gestir okkar hafi skemmt sér vel, þó veðrið hefði vissulega mátt vera betra, en það er nokkuð sem móttstjórn ræður ekki við.

Við sem höfum fylgst með mótinu undanfarin ár sjáum miklar framfarir hjá stúlkunum, sérstaklega í yngstu aldursflokkunum og það er oft ótrúlegt hvað yngstu stúlkurnar eru búnar að ná góðum tökum á knattspyrnunni. Við sjáum það líka að það eru fleiri lið að koma upp með mjög sterka hópa og það gerir þetta allt mikið skemmtilegra," sagði Sverrir D. Hauksson.

Ingibjörg Hinriksdóttir skrifar