GESTUR í sunnudagskaffi á Rás I 28. maí sl. var Geir H. Haarde fjármálaráðherra.

GESTUR í sunnudagskaffi á Rás I 28. maí sl. var Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Spurningunni um það hvort hann héldi ekki að fátækt væri til á Íslandi svaraði hann á þá leið að sjálfsagt væri til fátækt á Íslandi en hann væri orðinn dauðleiður á þessum eilífa samanburði við aðra. Hvers vegna ekki að miða við kjörin á fyrri hluta aldarinnar? Miðað við að íslenska þjóðin er nú talin ein af ríkustu þjóðum heims en var á fyrri hluta aldarinnar talin ein af þeim fátækustu, að minnsta kosti í hinum svo kallaða siðmenntaða heimi, hlýtur ráðherra sem nú í fimm ár ber ábyrgð á því með samráðherrum sínum hvernig þjóðarkökunni er skipt að vera með "formyrkvað" hugarfar af siðblindu og hroka fyrst hann gefur slíkt svar. En þetta er reyndar sú formúla sem þessir flokkar hafa löngum unnið eftir. Það er víst líka þess vegna sem núverandi ríkisstjórn er að velta yfir á sjúklinga, aldraða og öryrkja milljarði króna, sem átti að spara ríkinu án þess að nokkur þyrfti að líða fyrir það.

Hún er sannkallaður meistari á sínu sviði, framsóknarkonan Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og strengjabrúða fjármálaráðherra, svo að hann geti sýnt milljarð í tekjuafgang á fjárlögum. Það var auðleysanlegt vandamál með því að skera niður fjárframlög til Tryggingastofnunar ríkisins.

Ill var hennar fyrsta ganga

Það var fljótt sýnilegt þegar fyrrverandi ríkisstjórn Davíðs Oddsonar og Framsóknar komst til valda hvað hún ætlaði sér. Eitt af hennar fyrstu verkum var að lækka skattleysismörkin og slíta greiðslur til aldraðra og öryrkja úr sambandi við almenna launaþróun í landinu. Þetta hefur valdið því, að laun þessara hópa hafa dregist langt aftur úr almennri launaþróun.

En hvers vegna þessi blekkingaleikur með tölur? Samanber Morgunblaðið 7. júní þar sem Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, segir: "Opinberar tölur um meðalráðstöfunartekjur eldri borgara eru rangar." Þá segir hann einnig: "Skilyrðislaus krafa okkar er að þetta verði leiðrétt." Ef ríkisstjórnin heldur að við eldri borgarar sættum okkur við falsaðar tölur í staðinn fyrir

raunverulegar tekjur er það mikill misskilningur. Hvergi á Norðurlöndum er grunnlífeyrir jafn lágur og hér. Í Danmörku er hann helmingi hærri og líklega enn hærri í Svíþjóð og Noregi.

Í hnotskurn

Í góðærinu hans Davíðs hafa ráðstöfunartekjur eldri borgara og öryrkja stöðugt rýrnað. Það eru til nógir peningar í ríkiskassanum til að verja í einkavinavæðingu, álver og ótal jarðgöng, en ekki til að skipta þjóðarkökunni réttlátlega. Það er staðreynd sem ekki verður mótmælt að ríkisstjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks eru versti kosturinn sem almennt launafólk getur valið sér. Þetta vita allir sem fylgst hafa með vinnubrögðum þeirra gegnum tíðina. Flokkurinn sem sagði fyrir kosningar "fólk í fyrirrúmi" skiptir um ham eftir kosningar og beitir hnúum og hnefum til að berja niður þá sem höllustum fæti standa og hefur jafnvel staðið fyrir verstu skemmdarverkum, t.d. útsöluverði ýmissa ríkiseigna til fárra útvaldra. Það má segja að ríkisvaldið leggist býsna lágt þegar það styðst við falsaðar tölur til að sýnast annað og betra en það er. Það hefur svona hinar og aðrar hliðar, kannski ekki svo mjög áberandi, en sumar fremur ógeðfelldar ef vel er að gáð. Til dæmis getur það teygt klær sínar ótrúlega langt inn í eignir fólks ef því er að skipta og get ég nefnt mjög nærtækt dæmi um það. Ég og systir mín áttum vinnupláss í kjallara niðri í bæ og þegar við hættum að vinna seldum við vinnustaðinn fyrir þrjár milljónir - af þessum þremur milljónum urðum við að greiða 844.000 krónur í skatt. Svona margslungið er réttlæti ríkisvaldsins í hnotskurn.

AÐALHEIÐUR JÓNSDÓTTIR,

Furugerði 1, Reykjavík.

Frá Aðalheiði Jónsdóttur: