Fólk beið í röðum eftir að komast inn á opnunartónleika hátíðarinnar í Tómasarkirkjunni.
Fólk beið í röðum eftir að komast inn á opnunartónleika hátíðarinnar í Tómasarkirkjunni.
Bach-hátíðin mikla í Leipzig á 250. ártíð meistarans hófst á föstudagskvöld með opnunartónleikum í Tómasarkirkjunni. Halldór Hauksson fylgist með hátíðinni.

ÁRIÐ 2000 er ár Johanns Sebastians Bachs. Þessi þýski barokkmeistari skýtur oftar upp hárkolluprýddum kollinum í ár en endranær, hvort sem er á tónleikapöllum, í kirkjum eða í fjölmiðlum. Eins og flestir tónlistarvinir vita, er ástæða þessarar miklu athygli um víða veröld sú að 250. ártíðar tónskáldsins er minnst í ár. Í Leipzig, borginni þar sem Bach starfaði síðustu 27 ár ævi sinnar, fer þessi staðreynd ekki framhjá nokkrum manni þessa dagana. Alvarlegt andlit frægasta sonar borgarinnar er að finna á ótal auglýsingum, smáum sem risastórum, á hverju götuhorni og í blöðum, tímaritum og bæklingum af ýmsu tagi er fjallað um stærsta menningarviðburð ársins í Þýskalandi: Bachfest Leipzig 2000.

Bachhátíðin mikla í Leipzig á 250. ártíð meistarans hófst föstudagskvöldið 21. júlí með glæsilegum opnunartónleikum í Tómasarkirkjunni og hún mun standa yfir til sunnudagsins 30. júlí. Hápunkti verður náð föstudaginn 28. júlí, á sjálfum dánardegi tónskáldsins, en reyndar er hátíðin í heild ein heljarinnar veisla fyrir aðdáendur Bachs. Flestir frægustu Bachtúlkendur heims koma til Leipzig og flytja öll helstu verk hans, m.a. í kirkjunum sem hann starfaði sjálfur í.

75. hátíðin í röðinni

Það eru borgaryfirvöld í Leipzig sem gangast fyrir hátíðinni ásamt Nýja Bachfélaginu (Neue Bachgesellschaft), sem stofnað var upp úr hinu gamla um síðustu aldamót þegar það hafði lokið því verkefni sínu að gefa verk Bachs út á prenti. Framkvæmdina annast Bach-Archiv, stofnun sem er miðpunktur Bachfræða í heiminum, auk þess að reka Bachsafn og standa í stórræðum á borð við téða hátíð. Nýja Bachfélagið hefur allt frá stofnun leitast við að leiða augu tónlistaráhugamanna að Bach með árlegum hátíðum. Heimsstyrjaldir og annar ófögnuður hafa þó gert það mörg strik í reikninginn á tuttugustu öldinni, að hátíðin í ár, sem hefði getað verið sú hundraðasta, er í raun bara hin 75. í röðinni. Hátíðirnar hafa verið haldnar til skiptis í ýmsum þýskum borgum, m.a. reglulega í Leipzig. Í fyrra fannst yfirvöldum þar hinsvegar kominn tími til að festa í sessi árlega hátíð í borginni til heiðurs uppáhaldssyninum og hátíð ársins er annar áfangi þeirrar viðleitni. Hún er að öllu leyti mun stærri í sniðum en fyrirrennari hennar. Kostnaðurinn við hátíðina er 2,76 milljónir þýskra marka, eða ríflega hundrað milljónir íslenskra króna og um þriðjungur fjárins kemur beint úr borgarsjóði. Hvað ætli hafi ýtt borgarfulltrúum Leipzigborgar út á þessa braut? Skyldi það hafa verið samviskubit yfir meðförum forvera þeirra á Bach á sínum tíma, hann var ekki par ánægður með aðstöðu sína til tónlistariðkunar? Nei, ástæðan er einfaldlega sú að allar skoðanakannanir leiddu í ljós að þótt yfirvöld leituðust við að kynna Leipzig t.d. sem bókaborg, vegna glæstrar sögu bókaútgáfu í borginni, eða sem kaupstefnu- og verslunarborg, var það tónlistin og Bach gamli sem komu fyrst upp í huga útlendinga þegar þeir heyrðu minnst á Leipzig.

Stríðsátök og pólitískar sviptingar hafa leikið Leipzig grátt á þessari öld. Seinni heimsstyrjöldin tók sinn toll og ömurlegur smekkur austur-þýskra kommúnista fyrir arkitektúr blasir víða við. Það kemur því ekki á óvart að borgaryfirvöld skuli grípa þau tækifæri sem gefast til að fegra ímynd borgarinnar í hugum heimamanna og gesta. Nú stendur yfir mikið uppbyggingar- og fegrunarátak og það snýr að sambandi borgar og Bachs á einn og annan hátt. Eitt af stærstu verkefnunum hefur til að mynda verið allsherjarviðgerð á byggingunni sem tengist sögu tónskáldsins hvað nánustum böndum, Tómasarkirkjunni, í tilefni af árinu.

Eins og áður sagði voru opnunartónleikar hátíðarinnar haldnir á föstudagskvöldið var í þessari sögufrægu kirkju. Þeir hófust einmitt á bón sóknarprestsins, Christians Wolffs, um fjárframlög til endurbyggingarinnar, þannig að endar nái saman. Mönnum hefur þegar tekist að safna níu af þeim tíu milljónum marka sem leita varð til einkaaðila um.

Hátíðin fór vel af stað. Opnunartónleikarnir tókust í alla staði frábærlega. Í samræmi við einkunnarorð hátíðarinnar, Bach - upphaf og endir (útlegging á orðum Max Regers: "Bach er upphaf og endir allrar tónlistar") voru upphafstónar tónleikanna úr síðasta verki Bachs, Kunst der Fuge, Fúgulistinni, sem tónskáldinu auðnaðist ekki að ljúka við. Gerhard Ziebarth hafði útsett fyrsta kontrapunktinn fyrir kór án undirleiks við texta úr Opinberunarbókinni. Borgarstjórinn í Leipzig, Wolfgang Tiefensee, hélt að því loknu ræðu og síðar einnig listrænn stjórnandi hátíðarinnar og arftaki Bachs sem Tómasarkantor, Georg Christoph Biller, sem ennfremur stjórnaði tónlistarflutningnum. Yfirvöld hafa þar greinilega valið réttan mann, eins og Bach forðum, því hann hefur náð að lyfta hinum fornfræga Tómasarkór upp í miklar hæðir síðan hann tók við starfinu árið 1992. Gamlar upptökur með kórnum leiða berlega í ljós að hann gekk í gegnum nokkurt hnignunarskeið fyrr á öldinni, en líklegt er að sjálfur Bach hefði verið yfir sig hrifinn af engiltærum og hrífandi söng drengjanna á opnunartónleikunum. Efnisskráin var haganlega samansett og innihélt m.a. verk eftir Felix Mendelssohn, upphafsmann Bachendurreisnarinnar á síðustu öld, og næstelsta son Bachs, Carl Philipp Emanuel. Tónlist "gamla Bachs" var þó að sjálfsögðu í brennideplinum. Tómasarkórinn söng hina mikilfenglegu mótettu Singet dem Herrn og Sanctuskaflann úr H-moll messunni við undirleik hinnar sögufrægu Gewandhaushljómsveitar. Tónleikagestir fengu einnig að heyra organista kirkjunnar, Ulrich Böhme, leika á hið nýja Bachorgel kirkjunnar, glæsilegt og velhljómandi hljóðfæri í barokkstíl. Í lok tónleikanna voru flytjendurnir hylltir með standandi lófataki drjúga stund.