Sigurbjörn Guðmundsson
Sigurbjörn Guðmundsson
Kurteisi er útgjaldalítil, segir Sigurbjörn Guðmundsson, og leggur til verklagsreglu um framkomu við fólk á biðlistum sjúkrahúsa.

FRÚ heilbrigðisráðherra, Ingibjörg Pálmadóttir.

Ég leyfi mér hér með að rita yður þetta bréfkorn til að tjá yður viss óþægindi sem ég hef orðið fyrir í heilbrigðiskerfinu jafnframt því sem ég geri tillögur til úrbóta. Ég mun biðja ritstjórn Morgunblaðsins að birta þetta sem opið bréf til yðar.

Fyrir rúmum þremur árum var ég á biðlista vegna þindarslitsaðgerðar og var búinn að vera í nokkra mánuði. Þar sem ég hafði engin boð fengið um hvenær af aðgerðinni gæti orðið leyfði ég mér að ákveða að fara til Rómar og samgleðjast þar konu minni í tilefni af sextugsafmæli hennar. Á tilskildum tíma fór ég og greiddi farseðla og annan kostnað eins og vera ber. Sem ég hef lokið þessu og er kominn til vinnu minnar á ný er hringt til mín frá Landspítalanum og mér tjáð að ég eigi að mæta eftir tvo daga vegna undirbúnings aðgerðar. Ég taldi óráðlegt að leggja í langferð svo stuttu eftir aðgerð sem verða mundi og bað því um frestun á aðgerðinni fram yfir Rómarferðina, tilgreindi að sjálfsögðu dagsetningar. Engu að síður var hringt í mig að morgni þess dags sem ég skyldi leggja upp í ferðina og nú skyldi ég mæta daginn eftir til aðgerðarinnar. Ég vísaði til fyrra símtals og þeirra upplýsinga sem ég hafði gefið þá en konan á Landspítalanum virtis koma af fjöllum. Ég var bara á biðlistanum og engar aðrar upplýsingar skráðar þar. Ég bað enn um frestun. Síðan liðu tíu mánuðir og vel það áður en hringt var hið þriðja sinni. Óvissan þessa tíu mánuði fannst mér andlega niðurdrepandi einkum fyrstu mánuðina. Ég átti þá von á því í hverri viku að fá upphringingu og þorði engin áform að hafa uppi sem gætu komið í veg fyrir að ég gæti staðið upp fyrirvaralaust og lagst á skurðarbrettið.

En sagan er ekki öll sögð. Líkami minn virðist vera þeirrar náttúru, og ekki bara í þessu eina tilviki, að gera læknum erfitt fyrir um að gera á honum endurbætur og lagfæra það sem hefur farið aflaga. Tæpu ári eftir aðgerðina voru fyrri einkenni komin í ljós og rannsókn sýndi að enn þyrfti að taka til læknishendi. Og eftir nokkurn umþóttunartíma ákvað ég að láta freista nýrrar aðgerðar og var settur á biðlista. Nú hafði ég frumkvæði að upphringingu um það leyti sem læknirinn hafði tjáð mér að væri líklegur tími fyrir aðgerðina. Ég náði í læknaritara sem gat tjáð mér að ég væri að vísu á biðlistanum en ég væri aftarlega á honum þannig að það liðu áreiðanlega nokkrir mánuðir þar til röðin kæmi að mér. Í trausti þess að þetta væri rétt leyfði ég mér enn að kaupa farseðil til útlanda, nú í stutta ferð til Kaupmannahafnar að heimsækja dóttur mína sem þar var að ljúka háskólanámi. Og viti menn. Að morgni þess dags sem ég átti að leggja af stað var enn hringt frá Landspítalanum og ég beðinn að mæta daginn eftir vegna undirbúnings aðgerðar. Í þriðja sinn bað ég um frest, nú í viku hið minnsta. Síðan eru liðnir tveir mánuðir og ég hef ekkert frétt.

Þessi lífsreynslusaga mín segir mér í hnotskurn að svona eiga hlutirnir ekki að vera. Og þess vegna sný ég mér til yðar, frú ráðherra, með ákalli frá mér og væntanlega öðru biðlistafólki um að þér setjið sjúkrahúsunum verklagsreglu um meðferð á okkur. Hún gæti verið í eftirfarandi þremur liðum:

1. Hver sjúklingur sem settur er á biðlista skal þegar fá upplýst á hvaða fjögurra vikna tímabili aðgerðin verður gerð.

2. Eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðgerð skal sjúklingi sagt hvað dag hún fer fram.

3. Sjúklingi á biðlista skulu kynntar allar breytingar á áætlunum hann varðandi svo fljótt sem verða má.

Kurteisi af þessu tagi er útgjaldalítil og því tjáir ekki að fara að vola um fjárskort. Og er sjúkrahúsum nokkuð meiri vandi á höndum en læknum á stofum almennt sem gefa fólki upp viðtlastíma jafnvel marga mánuði fram í tímann. Sjúkrahúsum á ekki að vera nokkur vandi að meta með talsverðri nákvæmni hversu miklu álagi þau verða fyrir vegna bráðaþjónustu og innlagna alþingismanna, ráðherra og annarra fyrirmanna. Slíkir menn lenda varla á almennum biðlistum.

Og talandi um fjárskort. Hvers vegna má ekki láta mig og aðra sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús greiða kostnaðinn að hluta eða öllu leyti? Hver mánuður sem líður á meðan ég bíð eftir aðgerð kostar mig á þriðja þúsund krónur vegna lyfja og ríkissjóð enn hærri upphæð. Ég teldi því ekki eftir mér að leggja fram nokkra fjárhæð ef það mætti verða til að flýta aðgerðinni. Hins vegar tel ég varhugavert að stefna að meiri skattheimtu vegna svona mála. Ég er nefnilega nokkuð svipaðrar skoðunar og Nóbelskáldið okkar sem lætur eina af sögupersónum sínum komast að þeirri spaklegu niðurstöðu að bragðgæði síldar batni ekki við það að hún fari í gegnum hænumaga og verði að eggi. Ég tel að mínir fjármunir komi mér að betra gagni þurfi þeir ekki fyrst að fara í gegnum ríkissjóð og verða að ölmusu mér til handa.

Hafið þér annars nokkru sinni hugleitt hvað felst í umhyggju sjálfskipaðra vörslumanna hagsmuna smælingjanna. Í stuttu máli er það þetta: Enginn smælingi má fá meiri hjálp af almennu fé en svo að vörslumaðurinn og aðrir borgarar eigi rétt á sömu fyrirgreiðslu. Það er nefnilega mikill sannleikur fólginn í þeim orðum dr. Friedmans, að sérhver sá sem setur almennar reglur setur eigin hagsmuni ofar almannahag þegar það á við eða eitthvað í þá veru.

Það skal ítrekað í lokin að ég er ekki að biðja um sérstaka fyrirgreiðslu mér til handa heldur að settar verði almennar reglur sem geri mér og öðrum biðlistamönnum kleift að taka ákvarðanir fram í tímann og skipuleggja líf okkar með tilliti til þess sem bíður okkar en þurfum ekki að bíða í langvarandi óvissu. Og reynsla mín af þjónustu starfsmanna sjúkrahúsanna þegar til kastanna kemur að loknu biðlistalífi er slík að ég veit að þar bíður vel menntað og umhyggjusamt fólk sem vill öllum sjúklingum vel.

Höfundur er verkfræðingur.