NÍU veiðifélög við Breiðafjörð kærðu Hvurslax ehf. og Stofnfisk hf. í upphafi mánaðarins fyrir ólöglegan flutning á regnbogasilungi frá Suðurlandi vestur í Hraunsfjörð.

NÍU veiðifélög við Breiðafjörð kærðu Hvurslax ehf. og Stofnfisk hf. í upphafi mánaðarins fyrir ólöglegan flutning á regnbogasilungi frá Suðurlandi vestur í Hraunsfjörð. Í kærunni var einnig fullyrt að mörg tonn af regnbogasilungi hefðu sloppið er eldiskvíar brustu. Veiðiréttareigendur segja háttsemi fyrirtækjanna geta valdið óbætanlegum skaða á lífríki og náttúrulegum fiskistofnum ánna. Þeir fóru jafnframt fram á að lögreglan hæfi rannsókn á meintum brotum fyrirtækjanna. Forsvarsmenn fyrirtækjanna vísa þessari gagnrýni á bug.

Öll nauðsynleg leyfi til staðar

Birgir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hvurslax ehf. segir að kærur veiðiréttarhafa eigi ekki við rök að styðjast. Hvurslax hafi öll nauðsynleg leyfi til rekstursins. Fullyrðing veiðifélaganna um að mörg tonn af eldisfiski hafi sloppið þegar kvíar brustu sé einnig röng. Í fyrra hafi þó orðið það óhapp við slátrun á regnbogasilungi að hálft tonn af fiski hafi sloppið út. Birgir segir það vissulega slæmt þegar fiskur sleppur. Hinsvegar sé það lán í óláni að það hafi einmitt verið regnbogasilungur sem hafi sloppið því regnbogasilungur getur ekki fjölgað sér hér við land. Birgir segir veiðiréttarhafana lengi haft horn í síðu fyrirtækisins og vilji í raun losna með öllu við fiskeldisstöðina. Þetta sé ekki í fyrsta skipti sem veiðifélögin kæra Hvurslax. Birgir segir að kærurnar hafi aldrei náð fram að ganga. "Það er alveg sama hvað við myndum gera við myndum alltaf fá kærur á okkur," segir Birgir.

Furðulegar yfirlýsingar

Regnbogasilungurinn sem var alinn í Hraunsfirði kom frá eldisstöðvum Stofnfisks hf. á Suðurlandi.

Vigfús Jóhannsson framkvæmdastjóri Stofnfisks segir að kæra veiðifélaganna komi sér á óvart. Með því að senda kæruna til fjölmiðla og án þess að kynna sér málið hjá rekstraraðilum hljóti að vaka fyrir veiðifélögunum að gera fiskeldisstöðina í Hraunsfirði tortryggilega. Vigfús segir að þær upplýsingar sem hann hafi bendi til þess að Hvurslax hafi öll nauðsynleg leyfi til eldis og flutningur á regnbogasilungnum því fullkomlega löglegur. Flutningurinn hafi verið í tilraunaskyni og í samráði við dýralækni fisksjúkdóma og veiðimálastjóra. "Það er furðulegt að heyra þessar yfirlýsingar gagnvart regnbogasilungnum. Þetta er sárasaklaus tegund," segir Vigfús. Búast megi við að flestir fiskanna sem sluppu hafi drepist og útilokað sé að þeir valdi einhverjum varanlegum skaða á lífríki ánna.

Gísli Jónsson dýralæknir fisksjúkdóma skoðaði regnbogasilunginn sem var fluttur í Hraunsfjörðinn. "Þetta var fiskur sem var heilbrigður og eðlilegur á allan hátt," segir Gísli. Ef það sé rétt að um hálft tonn af regnbogasilungi hafi sloppið út sé hættan á skaða fyrir lífríki eða náttúrulega veiðistofna hverfandi. Regnbogasilungur eigi ákaflega erfitt með tímgun í villtri náttúru hér á landi. Hitastig í ám og vötnum sé einfaldlega of lágt. "Hann þarf mjög sérstakar aðstæður til. Hann jafnvel fjölgar sér ekki í villtri náttúru í Danmörku þar sem árhiti er miklu hærri en hér," segir Gísli. Ómögulegt sé að regnbogasilungur og laxastofnar blandist. Eini hugsanlegi skaðinn sem geti orðið sé ef lítið er um fæði í ánum. Þá sé hugsanlegt að regnbogasilungurinn éti laxaseiði. Hann segir þó ákaflega ólíklegt að slíkt valdi tjóni á veiðistofnum í ám. Aðalfæða regnbogasilungs séu flugur og ýmis gróður. "Ég get ekki ímyndað mér að þetta hafi dregið úr stangveiði í ánum," segir Gísli.

Ekki náðist í veiðimálastjóra í gær.