FJÁRMÁLAEFTIRLITIÐ mun ekki grípa til aðgerða vegna þeirra hækkana á ökutækjatryggingum sem vátryggingafélögin tilkynntu nýverið um.

FJÁRMÁLAEFTIRLITIÐ mun ekki grípa til aðgerða vegna þeirra hækkana á ökutækjatryggingum sem vátryggingafélögin tilkynntu nýverið um. Telur eftirlitið að þó að fjárhagsstaða stóru vátryggingafélaganna sé sterk og fé hafi losnað úr tjónaskuld fyrri ára hafi félögin sýnt fram á aukinn tjónakostnað og óstöðugleika í greininni. Fjármálaeftirlitið hafi þess vegna ekki forsendur til þess að grípa til aðgerða nú á grundvelli þess að iðgjöld séu ósanngjörn í garð vátryggingataka, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 60 frá 1994.

Fram kemur í yfirlýsingu sem Fjármálaeftirlitið sendi frá sér í gær að hafa beri í huga að vátryggingafélögin starfi á samkeppnismarkaði og að félög sem keppi á vátryggingamarkaði eigi að hafa talsvert svigrúm til iðgjaldaákvarðana.

Segir enn fremur að vátryggingafélögin hafi almennt bætt rökstuðning fyrir iðgjaldahækkunum gagnvart viðskiptamönnum sínum og með því orðið við tilmælum Fjármálaeftirlitsins. Stóru innlendu vátryggingafélögin hafi sent frá sér ítarlegar greinargerðir um forsendur iðgjaldabreytinga, birt greinargerðir á heimasíðum sínum og skrifað viðskiptamönnum sérstök bréf. Þessi vinnubrögð séu mikilsverður áfangi í bættri upplýsingagjöf .

Það er hins vegar mat eftirlitsins að nauðsynlegt sé að vátryggingafélögin haldi áfram á þeirri braut að bæta upplýsingagjöf til neytenda og að brýnt sé að hvert vátryggingafélag taki forsendur iðgjaldaákvarðana sinna til endurskoðunar um leið og frekari reynsla er fengin. Þeim beri að fylgjast vel með þróun í greininni og bregðast við henni með iðgjaldabreytingum, til hækkunar eða lækkunar ef tilefni er til.

Unnið að athugun á framkvæmd bónusreglna

Kemur fram í yfirlýsingu Fjármálaeftirlitsins að það muni fylgjast náið með þróun greinarinnar á næstu mánuðum og að það leggi áfram áherslu á aukið gagnsæi í starfsemi vátryggingafélaganna. Enn fremur að Fjármálaeftirlitið vinni í tengslum við þetta mál að athugun á framkvæmd bónusreglna og mögulegri endurskoðun vátryggingaskilmála lögboðinna ökutækjatrygginga varðandi gildistöku og endurnýjun.

Fjármálaeftirlitið vekur loks athygli á því að þeir viðskiptavinir sem eru með gjalddaga í ökutækjatryggingum þann 1. ágúst næstkomandi geti sagt upp vátryggingasamningum sínum fram að endurnýjun vegna þess hve seint félögin komu fram með umræddar hækkanir. Vegna þess hve seint hækkanirnar komu fram séu vátryggingatakar ekki bundnir af fyrirmælum skilmála um að segja upp samningi 30 dögum fyrir gjalddaga. Telur stofnunin að tryggingafélögum hafi borið að gera viðskiptavinum sínum grein fyrir þessu og gerir athugasemd við að tiltekin félög létu þessa ekki getið í tilkynningu til viðskiptavina.