EASY RIDER (1969) Sígild þjóðlífsskoðun og sagnfræðileg heimild um hippaspeki sjöunda áratugarins. Blómabörnin Hopper og Fonda leggja upp í ferð til að skoða Ameríku. Sú verður þeirra síðasta.

EASY RIDER (1969)

Sígild þjóðlífsskoðun og sagnfræðileg heimild um hippaspeki sjöunda áratugarins. Blómabörnin Hopper og Fonda leggja upp í ferð til að skoða Ameríku. Sú verður þeirra síðasta. Íhaldssamt umhverfi Suðurríkjanna ekki hollt boðberum frjálslyndisins. Félagarnir verða fórnarlömb þess hugsunarháttar sem þeir börðust á móti. Ein af stefnumótandi myndum vestan hafs og austan, eftirlíkingarnar óteljandi. Ein ábatasamasta mynd sögunnar, kostaði smáaura en rakaði inn milljónum. Hopper og Fonda leika sjálfa sig bærilega en Nicholson stelur senunni (ásamt Steppenwolf) í óborganlegri túlkun á lögfróðum drykkjurúti sem leggst út með þeim félögum. Heldur vel sínum upphaflega sjarma, ætti að vera flestum ágæt upplifun eða upprifjun.

COLORS (1988) ½

Firnasterk spennumynd, lögregludrama og ádeila á kynþáttavandamál stórborga í Vesturheimi. (Gott ef Hopper býr ekki enn í víggirtu setri í miðju vandræðahverfi í Los Angeles). Robert Duvall og Sean Penn eru báðir eftirminnilegir sem gjörólíkar löggur og nánir vinir á strætum L.A. Myndin sem er dregin upp af gengjastríðum, eiturlyfjaneyslu og almennu ófremdarástandi slömmhverfanna er ógnar raunsæ og hverfur ekki glatt frá áhorfandanum. Ein sterkasta og áhrifaríkasta myndin sem gerð hefur verið um vandamálið.

OUT OF THE BLUE (1980)

Harkaleg, raunsæ mynd um erfiðleika heimilisföður (Hopper) sem kemur að heimili sínu í niðurníðslu er hann sleppur út eftir langa fangelsisvist. Fyrrum hippi og gallagripur, reynir að raða brotunum saman en vandamálin má rekja til frjálsræðis sjöunda áratugarins sem Hopper lofsöng áratug áður í Easy Rider. Linda litla Manz er minnisstæð í hlutverki dótturinnar.