DANSKIR fjölmiðlar gera greinilega ráð fyrir því að KR-ingar verði liði Bröndby ekki mikil fyrirstaða á morgun.

DANSKIR fjölmiðlar gera greinilega ráð fyrir því að KR-ingar verði liði Bröndby ekki mikil fyrirstaða á morgun. Þeir telja greinilega öruggt að Bröndby muni mæta Hamburger SV frá Þýskalandi í þriðju umferð forkeppninnar og Politiken segir að í herbúðum þýska félagsins sé mikil ánægja með að hafa dregist gegn Bröndby. Útsendarar frá Hamburger SV voru mættir á leik Bröndby gegn AGF í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar á sunnudag til að skoða væntanlega mótherja.

Þjóðverjarnir eru varir um sig í ummælum um liðin sem þeir geta mætt og segja að auðveldir andstæðingar séu ekki til. "Þetta hefði getað verið verra," sagði Frank Pagelsdorf, þjálfari Hamburger SV, á heimasíðu félagsins, og fyrirliðinn, Martin Groth, segir að Bröndby sé allavega "yfirstíganlegur andstæðingur".