SIÐANEFND Prestafélags Íslands hefur komist að niðurstöðu vegna kæru Sigurðar Þórs Guðjónssonar á ákveðnum ummælum séra Sigurbjörns Einarssonar biskups. Siðanefndin telur sr.

SIÐANEFND Prestafélags Íslands hefur komist að niðurstöðu vegna kæru Sigurðar Þórs Guðjónssonar á ákveðnum ummælum séra Sigurbjörns Einarssonar biskups. Siðanefndin telur sr. Sigurbjörn hafa valið óheppilega samlíkingu og betur hefði verið að velja hófsamari samlíkingu. Hún féllst ekki á að um ámælisvert brot sé að ræða af hálfu sr. Sigurbjörns.

Kærandi spurði í erindi sínu hvort sr. Sigurbjörn hefði með ummælum sínum í kjölfar kristnihátíðar brotið siðareglur Prestafélags Íslands. Spurði hann sérstaklega um ummæli þess efnis að sumt af því sem birt hefði verið á opinberum vettvangi minnti á það allra versta sem verstu nasistar og kommúnistar hefðu haft fram að færa á sínum tíma og að það endurspeglaði andkristin viðhorf þeirra sem um ræddi. Einnig spurði hann hvort ummæli sr. Sigurbjörns um að gagnrýni væri nöldur, ólund og furðuleg árátta og að hann efaðist um að þarna væri eðlilegt heilsufar á ferðinni, væru brot á siðareglum.

Í úrskurði siðanefndar eru félagsmenn Prestafélagsins hvattir til að gæta hófs í orðfæri sínu þótt hún fái ekki séð að siðareglur P.Í. banni prestvígðum að kveða fast að orði á opberum vettvangi og féllst nefndin ekki á að ummæli sr. Sigurbjörns væru ámælisvert brot.

Fremur tilmæli en áminning

Séra Úlfar Guðmundsson, formaður siðanefndar Prestafélags Íslands segist ekki líta þannig á að úrskurður siðanefndarinnar sé áminning á sr. Sigurbjörn Einarsson heldur svar við fyrirspurn kæranda. "Sjónarmið okkar er að menn skuli stefna til þeirrar áttar að hætta að nota orð um heilsufar í óeiginlegri merkingu þegar rætt er um málefni. Þess vegna er úrskurður okkar miklu fremur tilmæli en áminning," segir sr. Úlfar. Hann segir siðanefnd skylt að taka til meðferðar erindi sem til hennar sé vísað og spyrja megi hvort reglur hennar séu of strangar að því leyti. Hann segir siðanefndina sammála um að sr. Sigurbjörn hafi jafnan tekið svari lítilmagnans í þjóðfélaginu og að hann hafi ekki verið að sneiða að geðfötluðum eða minni máttar."Siðanefndin vissi að hann var ekki að sneiða að Sigurði Þór Guðjónssyni því sr. Sigurbjörn hafði tjáð okkur að hann hefði ekki lesið grein Sigurðar þegar hann gaf svör sín."

Sr. Úlfar benti á að siðnefndin væri ekki dómstóll, enginn lögfræðingur sæti í nefndinni og að greinargerðin væri ábending til umhugsunar en ekki áminnig eða úrskurður. Hann ítrekaði að æskilegt væri að menn notuðu ekki orð um heilsufar eða heilbrigði í óeiginlegri merkingu í umræðu eins og algengt hefur verið og hann sagði siðanefndina hafa vikið áður að slíku í úrskurði.

Ekki ámælisvert brot

Úrskurður siðanefndarinnar fer hér á eftir:

Kærandi: Sigurður Þór Guðjónsson

Kærði: Sr. Sigurbjörn Einarsson biskup

Kæruefni

Sigurður Þór Guðjónsson kærir sr. Sigurbjörn Einarsson fyrir opinber ummæli þess síðarnefnda í kjölfar Kristnihátíðar, þar sem sr. Sigurbjörn sagði orðrétt: "sumt af því sem hefur verið birt á opinberum vettvangi minnir á það allra versta sem verstu nasistar og kommúnistar höfðu fram að færa á sínum tíma. þetta endurspeglar andkristin viðhorf þeirra sem um ræðir."

Einnig eru kærð ummæli hans í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 4. júlí sl., tilvitnuð þannig að gagnrýni væri "nöldur, ólund og furðuleg árátta" og bætti síðar við að hann efaðist um að þarna væri "eðlilegt heilsufar á ferðinni."

Kærandi óskar eftir að siðanefnd skeri úr um hvort sr. Sigurbjörn hafi með ummælum sínum brotið siðareglur 3.7, 2.2, 2.3, 2.8, 2.9 Prestafélags Íslands.

Málsmeðferð

Kæra barst formanni siðanefndar 6. júlí og þann 10. júlí ritaði formaður sr. Sigurbirni Einarssyni bréf þar sem honum voru kynnt þessi málsgögn og óskað eftir því að hann sendi siðanefnd skriflega umsögn um málið af sinni hálfu. Ljósrit af kærunni voru einnig send til siðanefndar. Bréf barst frá sr. Sigurbirni Einarssyni 14. júlí. Formaður sendi ljósrit af umsögn sr. Sigurbjörns ásamt blaðaúrklippum til siðanefndar 17. júlí. Ekki reyndist unnt að ná siðanefnd saman fyrr en 24. júlí vegna sumarleyfa. Kom Sigurður Þór Guðjónsson þá fyrir nefndina. Sigurbjörn óskaði ekki eftir að koma fyrir nefndina. Nefndin hélt fjóra fundi, þann 24., 25. og 26. júlí.

Greinargerð

Siðanefnd telur að greinar 2.2, 2.3 og 2.9 séu einkum til skoðunar vegna ummæla sr. Sigurbjörns, þar sem kveðið er á um sérstakar skyldur presta í afstöðu og viðmóti við aðra. Grein 3.7 á einkum við um skyldur gagnvart starfssystkinum, grein 2.8 á einkum við um umburðarlyndi presta gagnvart öðrum trúarhópum, en ummæli Sigurbjörns í ofangreindum fréttum teljast ekki sérstaklega beinast að þeim.

Í greinargerð sr. Sigurbjörns til siðanefndar vegna ummæla um "eðlilegt heilsufar", segir sr. Sigurbjörn: "Skynsamleg gagnrýni var lítt finnanleg en mikið um luntaskap, ólundarglefsur, hvæs og urr, hnútur og rógsmál í garð kirkju og kristindóms. Ég kalla slík viðbrögð ekki heilbrigð. Það ættu allir að skilja, að þegar talað er um heilsufar í sambandi sem þessu er orðið notað í óeiginlegri merkingu og er þess háttar málfar algengt. Flestir menn eru sæmilega lundgóðir, svo dæmi sé tekið, og efar enginn, að sá mannkostur teljist til heilbrigði og stuðli að góðu heilsufari í samlífi fólks. En þeir, sem eru svo gerðir, að þeir gerast lundillir, þegar aðrir gleðjast eða hátíð fer að höndum og taka þá að ausa úr sér óþverra, þeir njóta ekki öfundsverðrar heilsu. Við þessa skoðun hlýt ég að standa."

Siðanefnd telur óæskilegt að blanda heilsufari manna inn í umræðu um málefni. Kærandi segir í greinargerð sinni að skilja megi orð sr. Sigurbjörns á þá lund að ýmsir gagnrýnendur gangi ekki andlega heilir til skógar. Með því móti er geðfötlun "blandað inn í deilur um almenn mál og hlýtur að teljast ónærgætni gagnvart þeim hópum sem eiga við þá fötlun raunverulega að stríða og standa mjög höllum fæti í tilverunni." Undir þetta tekur siðanefnd.

Varðandi ummæli sr. Sigurbjörns í DV þar sem hann líkir málflutningi sumra þeirra sem gagnrýndu Kristnihátíð við það versta sem verstu kommúnistar og nasistar höfðu fram að færa, segir hann í greinargerð sinni: "Í umræddum svörum mínum var ekki vikið að gjörðum, heldur orðum. Það er því mjög fjarstæð ályktun, að ég hafi dróttað að morðum og öðrum illvirkjum að einum eða neinum íslenskum samtímamanni."

Siðanefnd telur ekki að sr. Sigurbjörn hafi með orðum sínum dróttað að morðum í anda nasisma og kommúnisma að neinum íslenskum samtímamanni enda hafi hann verið að svara málflutningi gagnrýnenda á Kristnihátíð en ekki að dæma verk þeirra. Á hinn bóginn ber samlíkingin við verstu nasista og kommúnista til kynna voðaverk þeirra í hugum manna og því vafasöm. Þó fellst siðanefnd á að samlíkingin við þessi öfl standi Sigurbirni nær þar sem hann "fylgdist vel með orðfæri þeirra lengi áður en þeir urðu almennt uppvísir að verstu verkum. "Hver sem vill má ásaka mig fyrir að hafa látið ýmsan málflutning á þessu hátíðarári minna mig á annað vont og minnisstætt," eins og hann segir í greinargerð sinni. Þrátt fyrir þetta telur siðanefnd sr. Sigurbjörn hafa valið óheppilega samlíkingu í sögulegu ljósi. Betur hefði farið að velja hófsamari samlíkingu.

Sr. Sigurbjörn beinir gagnrýni sinni ekki að neinum nafngreindum aðilum heldur ótilteknum hópi gagnrýnenda. Siðanefnd Prestafélagsins telur að betur hefði farið að hann hefði fundið orðum sínum stað frekar en að beina þeim með þessum hætti til allra sem gagnrýnt hafa Kristnihátíð.

Úrskurður

Siðanefnd hvetur félagsmenn að gæta hófs í orðafæri sínu þótt hún fái ekki séð að siðareglur P.Í. banni prestvígðum að kveða fast að orði í umræðum á opinberum vettvangi og fellst því ekki á að hér sé um ámælisvert brot að ræða á fyrrgreindum siðareglum.

Virðingarfyllst,

sr. Úlfar Guðmundsson

sr. Agnes M. Sigurðardóttir

Salvör Nordal.