TALIN er mikil hætta á að farsóttir komi upp á flóðasvæðunum í norð-austurhluta Indlands, Bangladesh, Bhutan og Nepal en þar er vatnið nú sums staðar tekið að sjatna, að sögn fréttavefjar BBC í gær.

TALIN er mikil hætta á að farsóttir komi upp á flóðasvæðunum í norð-austurhluta Indlands, Bangladesh, Bhutan og Nepal en þar er vatnið nú sums staðar tekið að sjatna, að sögn fréttavefjar BBC í gær. Ljóst er að minnst 120 manns hafa farist og meira en fimm milljónir manna eru heimilislausar vegna monsún-rigninganna.

Margir úr röðum hinna nauðstöddu þjást nú af húðsjúkdómum og niðurgangi. Einnig eru dæmi um malaríu. Tugþúsundir manna hafast við í bráðabirgðaskýlum og er víða skortur á mat og hreinu drykkjarvatni. Segja læknar að vaxandi hætta sé á að kólera stingi sér niður meðal fólksins þegar það snúi aftur til þorpa sinna. "Miklum áhyggjum veldur að umhverfið verður mengað og vatnsból full af sorpi og leðju," sagði embættismaður heilbrigðisyfirvalda í sambandsríkinu Assam. Talsmaður Alþjóðasambands Rauða krossfélaganna sagði að staðið vatn á hörmungasvæðunum yrði mjög heppilegt fyrir moskítóflugur er dreifa malaríunni meðal fólks með biti sínu.

Stjórnvöld í Assam hafa sent fjölda lækna og hjúkrunarfræðinga til að aðstoða fólk á flóðasvæðunum. Rauði krossinn hefur sent út beiðni um 3,5 milljón dollara, um 280 milljónir króna, vegna ástandsins. Víða þarf auk þess að endurreisa samgöngukerfið, varnargarðar, brýr og vegir hafa skolast burt. Kornuppskera er ónýt og íbúarnir, sem aðallega eru fátækir bændur, verða því á næstunni háðir matargjöfum.

Lækkandi vatnsborð í Bramapútra

Í Bangladesh er ástandið verst við fljótin Jamuna og Padma, fjölmörg þorp eru stórskemmd eða horfin og hafa þar um 700 þúsund manns orðið að flýja til svæða sem eru hærra yfir sjávarmáli, að sögn AFP-fréttastofunnar.

Höfuðborgin Dhaka hefur ekki farið varhluta af flóðunum, víða streymir vatnið um göturnar og hefur flaumurinn þar blandast vatni úr holræsum. Vatnsborð hefur hins vegar lækkað nokkuð í Bramapútra og fleiri fljótum í norður- og vesturhéruðunum en um leið eykst straumurinn á svæðunum sunnar, við Bengalflóann. Spáð var fremur lítilli rigningu í gær í mestum hluta landsins næsta sólarhringinn nema í Chittagong og fleiri strandhéruðum.