Viðarkveifin er lítill brúnn sveppur sem inniheldur banvæn eiturefni.
Viðarkveifin er lítill brúnn sveppur sem inniheldur banvæn eiturefni.
BANVÆNN sveppur fannst fyrir skömmu á göngustíg í Kjarnaskógi við Akureyri. Sveppurinn nefnist viðarkveif og ber latneska heitið Galerina marginata og er afar hættulegur sé hann étinn.

BANVÆNN sveppur fannst fyrir skömmu á göngustíg í Kjarnaskógi við Akureyri. Sveppurinn nefnist viðarkveif og ber latneska heitið Galerina marginata og er afar hættulegur sé hann étinn. Skammtur af honum matreiddum sem rúmast í tveimur matskeiðum nægir til að valda varanlegum skaða á mannslíkamanum.

Viðarkveifin fannst á skógarstíg sem viðarkurl hafði verið lagt á fyrir 5-6 árum en rotnandi viður er kjörlendi sveppsins. Slíkir stígar eru algengir hér á landi og því líklegt að viðarkveifin vaxi víðar. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri, segir sveppinn lítinn og ræfilslegan og því yfirleitt lítil hætta á að fólk taki hann í misgripum fyrir matsveppi. Helst væri hætta á að fíklar í leit að ofskynjunarefnum éti sveppinn en þeir eins og aðrir verða að kunna að þekkja þær tegundir sem þeir neyta. Guðríður Gyða varar fólk eindregið við því að borða sveppi sem það ekki þekkir með nafni. Fólk sem er óvant sveppatínslu eigi aldrei að tína sveppi sér til matar nema hafa einhvern reyndari sér til fulltingis.

Viðarkveifin hefur hingað til verið talinn sjaldgæfur sveppur hérlendis en í Kjarnaskógi fannst hann þó í töluverðu magni á um 50 m kafla í brún göngustígs. Á stíginn hafði verið borið viðarkurl sem Guðríður Gyða segir að myndi afar góð vaxtarskilyrði fyrir sveppinn. Viðarkveifin er lítill, brúnn sveppur, með 1-5 sm breiðan hatt. Stafurinn er um 2-6 sm langur og um 2-6 mm að breidd. Sveppurinn er með þunnan hring og stafurinn dökknar neðanfrá með aldri. Eitrið í viðarkveifinni heitir amatoxín og er það sama og finnst í nokkrum hættulegustu eitursveppunum. Í viðarkveifinni sé eitrið þó í heldur minna magni. Eiturefni í viðarkveifinni koma í veg fyrir próteinmyndun og að frum geti endurnýjast sem veldur viðvarandi skaða á nýrum, lifur og meltingarfærum og leiðir til dauða í 10-60% tilfella. Telji fólk sig hafa orðið fyrir eitrun af völdum sveppa skal það tekið skýrt fram við komuna á slysadeild, því matareitrun er mun líklegri en eitrun af völdum sveppa. Best er að hafa meðferðis sýni af sveppunum sem eru taldir hafa valdið eitruninni.

Nánari upplýsingar um viðarkveifina má fá á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands, www.ni.is.