Bretar senda landherlið og skriðdreka til Persaflóa London. Daily Telegraph. BRETAR hyggjast bregðast snöfurmannlega við ósk Bandaríkjamanna um að aðrar Vesturlandaþjóðir taki á sig þyngri byrðar af viðbúnaðinum við Persaflóa.

Bretar senda landherlið og skriðdreka til Persaflóa London. Daily Telegraph.

BRETAR hyggjast bregðast snöfurmannlega við ósk Bandaríkjamanna um að aðrar Vesturlandaþjóðir taki á sig þyngri byrðar af viðbúnaðinum við Persaflóa. Fyrir eru á svæðinu bresk herskip og flugvélar en á næstu dögum verða sendar þúsundir landhermanna til Saudi-Arabíu, þ.á m. fótgöngulið og ef til vill herflokkar sem hafa þyrlur til umráða, einnig skriðdrekar. Margaret Thatcher forsætisráðherra hlaut stuðning alls þorra þingmanna við stefnu sínaí Persaflóadeilunni við atkvæðagreiðslu í síðustu viku og vill nú staðfesta enn frekar að Bretar styðji Bandaríkjamenn dyggilega í deilunni. Hún vill að Saddam Hussein Íraksforseti sannfærist umað Bretar séu reiðubúnir að berjast.

Ákvörðun um liðsflutningana verður að líkindum tekin á næstu sólarhringum en einhver ágreiningur mun vera meðal ráðamanna um það hvers konar lið skuli sent á vettvang. Ein hugmyndin, sem talið er að njóti stuðnings varnarmálaráðuneytisins, er að brynvarið stórfylki, alls um 7.000 manna lið með 100 skriðdreka, verði sent frá setuliðinu í V-Þýskalandi áleiðis til flóans. Aðrir vilja senda liðsafla sem settur verði saman af lítilli skriðdrekasveit, þyrlum og hugsanlega herflokkum sem þjálfaðir eru í landgöngu af sjó og hafa til þess búnað. Nota yrði farþegaferjur tilað flytja svo mikinn liðsafla, sem rætt er um, á staðinn ásamt öllum búnaði. Nokkur ókostur er talinn að ekki er hægt að nota bandaríska varahluti í breska Challengerskriðdreka, skotfærin eru einnig annarrar gerðar.

Birgðaflutningar allir í sambandi við áætlunina eru mikið vandamál. Aðstæður í eyðimerkurhernaði, gífurlegur hiti og sandfok, valda því að bilanir eru tíðar á öllum tækjum. Taka myndi mánuð að flytja stórfylki til flóans, að sögn heimildarmanna er telja mögulegt að á endanum verði ákveðið aðsenda nokkru minna lið en áður hefur verið greint frá. Stjórnvöld telja nauðsynlegt að senda fremur þungvopnað lið en léttvopnaðr sveitir sem fluttar eru með flugvélum. Skriðdrekaher Saddams er ógnvekjandi og Bandaríkjamenn eru þegar byrjaðir að senda á brott frá Saudi-Arabíu hluta léttvopnaðra hersveita sem komu fyrst á staðinn eftir innrásina í Kúvæt.