Stefnt að úðun kartöflugarða í Þykkvabæ í dag LYF til að drepa kartöflugras sýkt af myglusvepp, sem kartöflubændur í Þykkvabæ sendu flugvél eftir til Noregs á þriðjudaginn, kom til landsins síðdegis í gær.

Stefnt að úðun kartöflugarða í Þykkvabæ í dag

LYF til að drepa kartöflugras sýkt af myglusvepp, sem kartöflubændur í Þykkvabæ sendu flugvél eftir til Noregs á þriðjudaginn, kom til landsins síðdegis í gær. Tafir urðu á komu vélarinnar til landsins vegna heræfinga á svæði suðaustur af Íslandi, en flug í minna en 10 þúsund metra hæð var ekki leyft þar um slóðir. Keypt var lyf til að úða yfir 250 hektara svæði í Þykkvabæ, og að sögn Jens Gíslasonar, kartöflubónda á Jaðri, er stefnt að því að hefja úðun garðanna í dag, en það verður að gera í þurrviðri.

Myglusveppurinn hefur fundist í kartöflugrasi í Þykkvabæ og Villingaholtshreppi, en auk þess eru taldar líkur á að hann sé einnig til staðar í kartöflugörðum í Hrunamannahreppi og Öræfum. Um 60% kartöfluframleiðslunnar eru á þessum svæðum. Jens sagði að í Þykkvabæ væri búið að taka upp 25-30% framleiðslunnar, eða um 2 þúsund tonn af 6-7 þúsund tonnum, og ef allt færi á versta veg gæti því hugsanlega allt að því helmingur uppskerunnar á þessu svæði í ár reynst sýktur.

Jens sagðist telja að of seint hafi verið brugðist við þegar ljóst var að um myglusvepp var að ræða í kartöflugrösunum. Vitneskja um það hefði legið fyrir á föstudaginn, en bændum hefði almennt ekki verið greint frá því fyrr en um hádegi á mánudag. Þeir hefðu því tekið upp úr görðum sínum á föstudag, laugardag og fyrir hádegi á mánudag, en ekki var hægt að vinna við uppskeruna á sunnudag vegna veðurs, og öll sú uppskera væri að öllum líkindum ónýt.

Lyfinu sem um ræðir er úðað yfir kartöflugarðana með dráttar véladælum, og sagði Jens að efnið kostaði um 6 þúsund krónur á hektarann. Von er á annarri sendingu af lyfinu til landsins á sunnudaginn.

Morgunblaðið/PPJ

Flugvél frá Leiguflugi hf. sótti lyfið út. Hér er verið að bera kassana úr vélinni í vörubíl á Reykjavíkurflugvelli í gær. Fremstur fer Jens Gíslason kartöflubóndi í Þykkvabæ.